Innlent

Ætla að ræða við hverja og eina fjölskyldu í Grímsey vegna stöðunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forseti bæjarstjórnar á Akureyri segir málið vera mikið áhyggjuefni.
Forseti bæjarstjórnar á Akureyri segir málið vera mikið áhyggjuefni.
Sala á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Sigurbirni efh. til Ramma hf. eru afar slæmar fréttir fyrir byggðina í Grímsey því með sölunni fer nær helmingur aflaheimilda útgerðarfyrirtækja í Grímsey frá eyjunni.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, segir að bæjaryfirvöld muni á næstu dögum ræða við íbúa Grímseyjar og taka ákvarðanir í framhaldi af því.

„Við munum fyrst ræða við hverja og eina fjölskyldu og væntanlega blása til íbúafundar. Þá sjáum við betur hver vilji íbúanna er og hvað við gerum í framhaldinu,“ segir Halla Björk.

Hingað til hefur þessi nyrsta mannabyggð Íslands byggt afkomu sína á sjávarútvegi. Aðspurð hvort endurskoða þurfi atvinnumál eyjunnar segir Halla Björk.

„Fæst orð bera minnsta ábyrgð akkúrat núna en það hefur þarna aðeins verið að þróast þarna ferðaþjónusta og það er spurning hvaða tækifæri við sjáum í því í framhaldinu og eins með sjávarútveginn, hvað verður núna næstu mánuði.“

Er eitthvað sem bæjaryfirvöld geta gert til að bregðast við stöðunni?

„Það er ýmislegt sem við getum gert. Við höfum verið að vinna í þessu verkefni brotthættar byggðir með byggðastofnun og þar hafa komið fram ýmsar hugmyndir sem hefur verið unnið að á síðustu árum. Í framhaldinu getum við brugðist við með ýmsum hætti en fyrst og fremst þurfum við náttúrulega að heyra hver vilji íbúanna er.“

„Þetta er vissulega áhyggjuefni. Við sem bæjarstjórn, höfum áhyggjur af stöðunni en eins og ég hef sagt áður að öllum breytingum fylgja einhver tækifæri og við verðum bara að horfa á þau og bregðast síðan við.“


Tengdar fréttir

Segir forréttindi að fá að búa í Grímsey

Ferðamálafræðingur sem býr í Grímsey segir að nú sem mikil tækifæri til þess að fólk nýtt fólk til Grímseyjar og gamla heima menn til þess að snúa til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×