Erlent

Sigursæll borgarstjóri Búdapest ætlar að mynda mótvægi við Viktor Orbán

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Gergely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest.
Gergely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest. Nordicphotos/Getty

„Við höfum eytt goðsögninni um að Fidesz sé ósigrandi og þetta hefur gríðarleg áhrif fyrir allt landið,“ sagði Gerg­ely Karacsony, nýr borgarstjóri í Búdapest, í viðtali í gær. Karacsony vann óvæntan sigur í kosningum á sunnudag og lagði Istvan Tarlos að velli, en hann hefur verið borgarstjóri síðan 2010 fyrir Fidesz, harðlínu hægriflokk forsætisráðherrans Viktors Orbán. Alls sigraði stjórnarandstaðan í 10 af 23 stærstu borgunum.

Karacsony, sem tekur við embætti í dag, hefur heitið því að mynda mótvægi við ríkisstjórnina út á við og gagnvart Evrópusambandinu, í samstarfi við Rafal Trzaskowski, hinn frjálslynda borgarstjóra Varsjár. Fidesz og Lög og réttlæti, stjórnarflokkarnir í Ungverjalandi og Póllandi, hafa verið tregir og ögrandi gagnvart Evrópusambandinu á undanförnum árum.

Á fyrsta embættisdegi sínum ætlar Karacsony að senda Orbán bréf um samstarf á ýmsum sviðum. Hann segist vilja gott samstarf við ríkisstjórnina en ef sá vilji er ekki gagnkvæmur sé hann ekki hræddur við átök. Í sumum málaflokkum verði honum ekki haggað, svo sem í umhverfismálum og mannréttindamálum.

Fidesz-liðar tóku ósigrinum illa og hafa þegar hafið rógsherferð gegn Karacsony. Segja þeir að hann hafi unnið kosningarnar á atkvæðum frá útlendingum. Orbán sjálfur hefur hins vegar reynt að gera lítið úr úrslitunum og bendir frekar á kosningatölur í dreifbýlinu þar sem Fidesz gekk betur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.