Fótbolti

Þjálfari Búlgara sagði af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Krasimir Balakov.
Krasimir Balakov. Getty/Filip Filipovic
Krasimir Balakov, þjálfari búlgarska landsliðsins í fótbolta, er búinn að segja starfi sínu lausu en þetta kemur í kjölfarið á umdeildum viðbrögðum hans eftir kynþáttaníð áhorfanda á leik Búlgaríu og Englendinga í undankeppni EM 2020.Það þurfti tvisvar að stöðva leik Búlgaríu og Englands á mánudaginn var eftir að stuðningsmenn búlgarska landsliðsins voru með kynþáttahatur í stúkunni.Eftir leikinn sagði hinn 53 ára gamli Krasimir Balakov að hann hefði ekki heyrt neitt slíkt. Ummæli hans voru harðlega gagnrýnd en hann afsakaði sig seinna með því að segja að hann hafi bara verið að einbeita sér að leiknum sjálfum.„Ég er ekki lengur þjálfari búlgarska landsliðsins,“ sagði Krasimir Balakov við búlgarska fjölmiðla í dag. Hann hitti þá þegar hann kom út af fundi með búlgarska knattspyrnusambandinu.Búlgörsk yfirvöld hafa fundið sextán sökudólga sem voru með kynþáttaníð á leiknum og hafa enn fremur handtekið tólf þeirra vegna hegðunar þeirra.Fjórir stuðningsmenn voru dæmdir í tveggja ára bann og fengu sekt að auki en rannsókn stendur yfir í máli hinna.„Ég óska næsta þjálfara alls hins besta en ástandið núna er enginn dans á rósum,“ sagði Krasimir Balakov sem var á sínu fyrsta ári með búlgarska landsliðið.Hann lék sjálfur 82 landsleiki fyrir Búlgara og var lykilmaður þegar landsliðið sló í gegn á HM í Bandaríkjunum sumarið 1994. Krasimir Balakov var valinn í úrvalslið mótsins þar sem Búlgaría náði fjórða sætinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.