Innlent

Kjaraviðræðum BSRB og ríkisins slitið

Samúel Karl Ólason skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Vísir/Vilhelm
Kjaraviðræðum BSRB og ríkisins var slitið í dag. Á morgun verður fundur með samningseiningum BSRB um að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir viðræður lítið sem ekkert hafa þokast áfram, með tilliti til styttingu vinnuvikunnar.

„Í grunninn erum við búin að eiga í mestri umræðu um styttingu vinnuvikunnar og það hefur lítið sem ekkert þokast áfram hvað varðar. Við erum að miklu leyti til á sama stað og við vorum í upphafi samningsviðræðna og kjarasamningar eru búnir að vera lausir frá 1. apríl,“ segir Sonja í samtali við Vísi.

Hún segir óásættanlegt að samninganefnd ríkisins virðist ekki hafa nálgast viðræðurnar af heilum hug. Það hafi verið reynt á samningsvilja þeirra í marga mánuði.

„Þá er ekkert annað eftir en að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara og við munum taka það til umræðu með samningseiningum BSRB á morgun.“

Í tilkynningu til fjölmiðla er haft eftir Sonju að formaður samninganefndar ríkisins hafi gert forsvarsmönnum BSRB ljóst að nefndin hefði ekki umboð til að ganga langra. Það var eftir að samninganefnd ríkisins lagði fram tillögu að lausn deilunnar sem bandalagið taldi algjörlega óaðgengilega.

Helst er deild um kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án kjaraskerðingar, með meiri styttingu fyrir vaktavinnufólk. Samkvæmt áðurnefndri tilkynningu miðaði tilboð ríkisins áfram við 40 stunda vinnuvikun en opnaði á möguleika á að samið yrði um að stytta vinnuvikuna á einstökum vinnustöðum með því að sleppa kaffitímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×