Innlent

Íslendingur leiðir sósíalista til sigurs í Stafangri

Jakob Bjarnar skrifar
Mímir Kristjánsson leiddi sósíalista í Noregi til góðs kosningasigurs í Stafangri og því fagna vitaskuld íslenskir skoðanabræður hans.
Mímir Kristjánsson leiddi sósíalista í Noregi til góðs kosningasigurs í Stafangri og því fagna vitaskuld íslenskir skoðanabræður hans.

„Af sósíalískum og þjóðræknislegum ástæðum fögnum við sérstaklega góðum árangri systurflokki sósíalista í Noregi, Rødt, í Stafangri þar sem Mímir Kristjánsson leiddi listann, sonur Kristjáns Guðlaugssonar, sem virkur var í hinu villta vinstri á Íslandi á áttunda áratugnum,“ segir Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.

Mímir leiddi Rødt í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í Noregi í gær en fylgi flokksins fór úr 1,5 og upp í 5,5 prósent í Stafangri. Veruleg aukning sem þýðir að flokkurinn fékk fimm bæjarfulltrúa þar.

Á vefsíðunni nýjaisland.no er greint frá þessu og Mími óskað til hamingju með þennan glæsilega árangur.

„Mímir er norskur ríkisborgari og á norska móður en íslenskan föður. Hann hefur starfað sem blaðamaður og fréttastjóri á dagblaðinu Stéttarbaráttan (Klassekampen) undanfarin ár ásamt því að hann hefur skrifað bækur og verið álitsgjafi í sjón- og útvarpi um stjórnmál,“ segir á vefsíðunni.

Páll Valsson forleggjari og bókmenntafræðingur bætir við þeim upplýsingum á Facebooksíðu Sósíalistaflokks Íslands að Kristján hafi gert textann við lagið vinsæla, Ísland úr Nató.

„Sem sungið var á hverri samkomu herstöðvaandstæðinga. „Á Miðnesheiði bandarískur basi er ...““

Eins og gefur að skilja fagna íslenskir sósíalistar þessu og telja þetta gefa góð fyrirheit um aukið fylgi sér til handa á Íslandi. Gunnar Smári greinir frá því að Mímir hafi heimsótt sósíalista á Íslandi og sagt þeim frá uppbyggingu Rødt. „Hann var með ráðagerðir um að flytja hingað með fjölskylduna til að ná tökum á íslenskunni, sem hann skilur en talar ekki liðugt. En það verður ekki af því samkvæmt þessu, hann er fluttur til Stafangurs.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.