Innlent

Ólíkar skoðanir á þungunarrofi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Óhætt er að segja að mikill munur sé á viðhorfi Pence og íslenskra stjórnvalda til þungunarrofs. Varaforsetinn hefur verið leiðandi í baráttunni gegn fóstureyðingum á meðan Alþingi hefur farið hina leiðina. 

Á meðan Alþingi samþykkti fyrr á árinu frumvarp sem heimilar óléttum að velja þungunarrof fram að tuttugustu og annarri viku meðgöngu hefur Mike Pence beitt sér fyrir hertri löggjöf í Bandaríkjunum.

Sem ríkisstjóri Indíana undirritaði Pence fjölda frumvarpa um herta löggjöf. Þá stóð ríkisstjórn Donalds Trump forseta meðal annars að nýjum lögum sem heimila ríkjum að loka á fjárveitingar til stofnana sem framkvæma þungunarrof.

„Hann [Trump forseti] undirritaði einnig frumvarp sem mun heimila ríkjum að skera á alríkisfjárveitingar til þeirra er framkvæma þungunarrof og það gleður mig að segja ykkur frá því að ég fékk tækifærið til þess að greiða oddaatkvæði um málið í öldungadeild Bandaríkjaþings,“ sagði Pence á ráðstefnu árið 2017.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er á allt annari skoðun en Pence. Það kom skýrt fram í umræðum um þungunarrofsfrumvarpið í maí. „En við skulum hafa það í huga að konan verður ekki frjáls nema hún ráði yfir eigin líkama. Og þetta frumvarp er skref í þá átt að gera konur í þessu landi frjálsari og ég styð það heilshugar,“ sagði hún í umræðunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.