Lífið

Kevin Hart slasaðist illa á hrygg en aðgerðin gekk vel

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kevin Hart er einn vinsælasti grínisti heims.
Kevin Hart er einn vinsælasti grínisti heims. Myndir / Getty / TMZ
Bandaríski grínistinn Kevin Hart slasaðist alvarlega í umferðarslysi í Kaliforníu á sunnudaginn. Miðillinn TMZ hefur fjallað ítarlega um málið í vikunni.

Hart var á ferð á Mullholand-veginum í Malibu þegar áreksturinn átti sér stað. Hart var farþegi í Plymouth Barracuda sem hafnaði utan vegar eftir að bílstjórinn missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að bíllinn fór nokkrar veltur niður upphlaðinn vegkantinn.

Auk Harts voru tveir til viðbótar í bílnum. Er ökumaðurinn einnig sagður hafa slasast alvarlega. TMZ segir að framundan sé löng og ströng endurhæfing hjá Hart en hann varð að gangast undir heljarinnar aðgerð þar sem læknar urðu að lagfæra skemmdir á hrygg á þremur mismunandi stöðum.

Aðgerðin mun hafa gengið vel en leikarinn og grínistinn mun vera á sterkum verkjalyfjum allan sólahringinn.

Hart ætti að ná fullum bata og telst ver mjög heppinn. TMZ segir frá því að grínistinn hefði getað lamast varanlega í slysinu. Framundan sé löng og ströng endurhæfing hjá Hart sem gæti tekið marga mánuði.

Búið var að tilkynna um fimm ný verkefni sem Kevin Hart átti að taka þátt í og verða þau verkefni sett á ís í bili.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×