Fótbolti

Fyrsti leikur Bendtner fer fram á bak við luktar dyr: Hræddir við Bendtner-æðið í Köben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner á blaðamannafundi þegar hann var kynntur sem leikmaður FCK.
Nicklas Bendtner á blaðamannafundi þegar hann var kynntur sem leikmaður FCK. Getty/ Lars Ronbog
Það hefur gripið um sannkallað Bendtner æði í Kaupmannahöfn eftir að danski knattspyrnumaðurinn Nicklas Bendtner ákvað að snúa heim til Danmerkur og semja við FCK.

Allar FCK treyjurnar seldust upp á fyrsta sólarhringnum eftir að fréttist af samningi Bendtner við danska félagið.

Nú er áhuginn svo mikill að fyrsti leikur Nicklas Bendtner fyrir FC Kaupamannahöfn verður að vera spilaður á bak við lokaðar dyr.

Ástæðan fyrir því að engum áhorfendum verður hleypt inn á leikinn er að forráðamenn FCK óttast það að æfingavöllurinn myndi fyllast af fólki og þeir myndu ekki ráða við eitt eða neitt.





Hinn 31 árs gamli Nicklas Bendtner kom til danska félagsins á frjálsri sölu en hann hefur spilað erlendis síðan að hann var sextán ára þar af í langan tíma með Arsenal en nú síðast með Rosenborg í Noregi.

Þetta verður fyrsti fótboltaleikur Nicklas Bendtner síðan 28. apríl en umræddur æfingaleikur er á móti nágrönnunum í Bröndby og fer hann fram á þriðjudaginn kemur.

„Þetta er klikkað. Ég held að markaðsdeildin okkar hafi aldrei lent í svona áður. Við þurfum örugglega að fara aftur til Preben Elkjær á níunda áratugnum til að finna annan danskan leikmann sem hefur svona mikla hetjustöðu meðal danskra knattspyrnuáhugamanna,“ sagði Ståle Solbakken stjóri FCK.

„Þessi leikur er á móti Bröndby og það er alltaf eins og stríð. Það er ekki mögulegt að hleypa fólki inn. Það myndu koma stuðningsmenn frá báðum félögum og allt í einu væru við komin með þrjú til fjögur þúsund manns á æfingaleik. Við ráðum ekki við það á okkar æfingavelli,“ sagði Solbakken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×