Innlent

Persónuafsláttur lækkar um rúmar 5.000 krónur á næstu tveimur árum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá kröfugöngu verkalýðsins 1. maí síðastliðinn. Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist fyrir hækkun á persónuafslætti.
Frá kröfugöngu verkalýðsins 1. maí síðastliðinn. Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist fyrir hækkun á persónuafslætti. Vísir/Friðrik Þór
Persónuafsláttur lækkar um rúmar 5.000 krónur á næstu tveimur árum. Þetta kemur fram í gögnum frá fjármálaráðuneytinu. Lækkunin kemur til framkvæmda í lok innleiðingar nýs skattkerfis árið 2021.

Lækkun á persónuafslætti er liður í skattabreytingum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020. Umfangsmesta breytingin er á tekjuskatti einstaklinga en um áramót kemur til framkvæmda fyrri áfangi innleiðingar nýs tekjuskattskerfis. Þessar breytingar fela m.a. í sér þriggja þrepa tekjuskattskerfi en í núverandi kerfi eru þrepin tvö.

Sjá einnig: Persónuafsláttur hækkar um 2.000 krónur á mánuði

Í kynningu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á nýju skattkerfi kemur fram að árið 2021, að lokinni innleiðingu kerfisins, verði skatthlutfall 31,4% í fyrsta þrepi, sem er nýtt lágtekjuþrep á laun upp að 325 þúsund krónum. Hlutfallið verður 37,94% í öðru þrepi og 46,24% í þriðja þrepi.

Úr glærukynningu fjármálaráðherra frá kynningu á fjárlagafrumvarpi í morgun.
Samhliða innleiðingu nýja þrepsins verður skattleysismörkum haldið óbreyttum að raunvirði með því að lækka persónuafslátt. Skattleysismörkin munu eftir innleiðingu breytinganna taka mið af verðbólgu og framleiðniaukningu vinnuafls.

Við lok innleiðingarinnar árið 2021 mun persónuafsláttur, sem nú er 56.447 krónur á mánuði, nema 51.265 krónum á mánuði. Lækkunin nemur þannig 5.182 krónum.

Nánar um fjárlagafrumvarpið í vaktinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×