Lífið

Hugrökk, full af lífi og með „óaðfinnanlega raddbeitingu“

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Áslaug Arna ásamt ömmu sinni, Elsu Pétursdóttur.
Áslaug Arna ásamt ömmu sinni, Elsu Pétursdóttur.
Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur er lýst sem ábyrgum töffara sem tekur sig ekki of alvarlega. Hún er sögð eldri en árin sem hún hefur lifað. Henni er lýst af vinum og vandamönnum sem skemmtilegri og duglegri og er sögð ekki mikla hlutina fyrir sér.

Bróðir hennar fagnar því að hún fái loks bílstjóra, því hún sé afleitur ökumaður. Vinkonur hennar segja það ekki fara fram hjá nokkrum manni þegar hún gengur inn í herbergi með rödd sína sem vinkonurnar kalla „hina óaðfinnanlegu raddbeitingu“ enda detti engum í hug að liggja á hvísli með Áslaugu. Slíkur sé raddstyrkurinn.

Amma hennar segir Áslaugu hafa kennt henni að leiða hjá sér óréttmæta gagnrýni og kennir Áslaugu heimilisstörf á móti. Hún segir Áslaugu hafa verið stjórnsamt barn; á fyrstu árunum hafi hún stjórnað hlutunum í kringum sig og það hafi hún frá móður sinni heitinni. „Það hvarflaði nú ekki að mér að það myndi leiða til þess að hún færi að stjórna heilu ráðuneyti,“ segir amman, létt í bragði, stolt af barnabarninu sem hún hefur tröllatrú á í nýju hlutverki dómsmálaráðherra.

Feðginin Sigurbjörn og Áslaug Arna.
Sigurbjörn Magnússon, pabbi:

„Ég er og hef alltaf verið mjög stoltur af henni Áslaugu minni. Hún fæddist á fæðingardeild Landspítalans eins og flest okkar. Þar var til þess tekið að þegar Áslaug Arna lá með öðrum börnum þá grenjaði hún langhæst og var því auðþekkt á þessari fyrirferð og hávaða og þurfti maður ekki að leita lengi að stofunni þar sem þær mægður voru. Móðir hennar hafði á orði af þessu tilefni að það kæmi ekki á óvart að það myndi fara eitthvað fyrir henni þessari síðar þegar hún yxi úr grasi. Um það hefur móðir hennar heitin reynst sannspá,“ segir Sigurbjörn.

„Áslaug heitir eftir móður minni, Áslaugu Sigurbjörnsdóttur, sem á einmitt afmæli í dag, 6. september, og hefði orðið 89 ára ef hún hefði lifað. Hún hefði heldur betur verið ánægð og stolt með nöfnu sína og sérlega ánægjulegt að hún taki við ráðherraembætti þennan dag og það hlýtur að vita á gott. Það var alla tíð mjög kært á milli þeirra og þykir Áslaug um margt minna á ömmu sína bæði í útliti og framgöngu. Og það má segja að ef einhverjar tvær konur hafi haft áhrif á Áslaugu Örnu þá sé það móðir mín og móðir hennar, Kristín, sem lést fyrir sjö árum,“ segir hann.

Hann segir Áslaugu hafa mikið keppnisskap. „Því kynntist ég þegar ég fékk að aðstoða hana í hestakeppnum af ýmsum toga hér á árum áður, en þar er um að ræða einstaklingskeppni og þá þarf allt að ganga upp á mjög stuttum tíma þegar á hólminn er komið, þótt undirbúningurinn hafi verið langur og strangur. Við áttum margar góðar samverustundir í hestamennskunni og mér tókst að ná henni í stutta hestaferð núna í ágúst upp á afrétti Gnúpverja og Hrunamanna. Var það mjög ánægjuleg samvera með góðum vinum á góðum hestum,“ segir Sigurbjörn.

„Fyrstu eldskírn sína í pólitík fékk Áslaug fyrir tiltölulega saklaus ummæli um að það væri hennar skoðun að það ætti að vera hægt að kaupa hvítvín á sunnudögum ef menn vildu fá sér hvítvín með humrinum. Skemmst er frá því að segja að við þessi saklausu ummæli fór allt á annan endann í þjóðfélaginu en Áslaugu tókst að snúa því sér í hag með sinni jákvæðni, brosmildi og staðfestu. Alls kyns spekingar, sem reiddu hátt til höggs, þurftu að lúta í duft,“ segir Sigurbjörn.

„Eplið fellur ekki langt frá eikinni, segir máltækið. Ég var einhvern tíma spurður að því af blaðamanni þegar ég var á sama aldri og Áslaug hvaða áhugamál ég hefði: Svarið var; lögfræði, pólitík og hestamennska. Kannski eplið hafi aldrei fallið af eikinni.“

Svanhildur segir Áslaugu mikla fjölskyldumanneskju.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, vinkona og vinnufélagi:

„Áslaug er mjög merkilegt eintak af manneskju. Eldri en árin sem hún hefur lifað, og með alveg risastórt og afar rúmgott hjarta,“ segir Svanhildur.

„Hrafnhildur, yngsta dóttir mín, hefur tekið sérstöku ástfóstri við hana og telur Áslaugu alltaf með systrum sínum. Besta sem hún veit er að fá að gista hjá Áslaugu sinni, sem flutti tannburstann hennar Hrafnhildar með í nýju íbúðina úr Stakkholtinu í sumar.“

Svanhildur segir Áslaugu mikla fjölskyldumanneskju. „Hún á mjög sterkt og gott samband við systkini sín. Ég held líka að það að alast upp með systur með fötlun hafi mótað Áslaugu mjög mikið og gefið henni innsýn í þann heim sem hún hefur skilað í gegnum vinnuna. Áslaug er fær stjórnmálamaður. Klár, dugleg, vandvirk og huguð. Hún kann sig og kemur vel fyrir en í eðli sínu er hún algjör skellibjalla sem á ekki innirödd, ofsalega skemmtileg og mikill vinur vina sinna.“

Magnús Sigurbjörnsson, bróðir:

„Það var skrifað um nöfnu hennar og föðurömmu okkar að Áslaug væri einstök perla. Sú lýsing á sérstaklega vel við Áslaugu Örnu líka. Við systkinin höfum alltaf verið náin og góðir vinir. Það hefur mér alltaf þótt vænt um. Systir mín er ákveðin, óhrædd og lætur ekkert stoppa sig þó á móti blási. Hún tekur sig heldur ekki of alvarlega,“ segir Magnús. „Hún nýtir hvert einasta tækifæri til að gera gott úr hlutunum, þó þeir séu erfiðir.“

Magnús segir Áslaugu alltaf hafa borið af í ræðumennsku. „Síðan ég man eftir mér hefur hún ekki hikað við að halda ræður við hin ýmsu tilefni. Það kristallaðist í því að þegar hún byrjaði í Verzló og ég var á lokaárinu mættumst við systkinin í ræðukeppni innan skólans. Umræðuefnið var lauslæti. Við áttum að sjálfsögðu ekki séns í nýnemana með Áslaugu í broddi fylkingar og skíttöpuðum,“ rifjar Magnús upp og hlær.

„Síðan verð ég að minnast á þær gleðifregnir að systir mín sé að fá bílstjóra. Ekki af því að það sé svo næs, endilega. Áslaug er bara ferlegur bílstjóri og götur borgarinnar verða öruggari þegar henni verður kippt úr umferðinni. En það er gott að það þarf ekki endilega að fara saman, að vera góður bílstjóri og góður dómsmálaráðherra. Seinna hlutverkið mun systir mín leysa með prýði.“

Elsa Pétursdóttir, móðuramma:

„Ég hef ekki áhyggjur af því hvernig Áslaug mun standa sig. Hún hefur svo margt að gefa. Ég hef aðeins áhyggjur af álaginu, þetta verður vinna, en hún er dugleg og úrræðagóð og ég treysti henni til að takast á við þetta. Svo hefur hún svo góða og þægilega framkomu,“ segir Elsa. Hún segir Áslaugu alla tíð hafa verið á kafi í félagsmálum. „Það hvarflaði ekki endilega að mér að stjórnmál kæmu inn í myndina, en þegar ég sá hana á landsfundi og hún tók við ritaraembættinu þá sá ég að sennilega yrði ekki aftur snúið.“

Elsa segist hafa lært af barnabarninu að leiða hjá sér gagnrýni sem fylgir lífi stjórnmálamanns. „Þetta getur verið hart og leiðinlegt. Ég er ekki á samfélagsmiðlunum svo ég sé ekkert þar, en sumt kemst maður ekki hjá því að sjá. Mér finnst leiðinlegt og sorglegt hversu margar neikvæðar raddir heyrast í okkar samfélagi, en ég hef lært það af Áslaugu að taka þetta ekki inn á mig. Hún hefur raunar kennt mér margt, og ég vona að ég hafi kennt henni eitthvað líka.“

Að strauja? Þú ert stundum í aðalhlutverki á samfélagsmiðlum Áslaugar með straujárn í hendi?

Elsa hlær. „Ég þarf ekki að hjálpa henni, en hún er svo elskuleg og veit að ég hef gaman af því, en jú, ég aðstoða stundum við heimilisstörfin. Ég get ekki aðstoðað við stjórnmálin, en í heimilisstörfunum hef ég heilmikið fram að færa. Mér finnst svo gaman að vera með Áslaugu Örnu því hún er svo þægileg, elskuleg og tillitssöm. Hún bjargar sér sjálf, en ég hef stundum troðið mér inn. Maður reynir samt að vera ekki afskiptasamur en miðla samt af reynslunni og hún miðlar mér af sinni reynslu.“

Elsa segir Áslaugu hafa verið stjórnsamt barn. „Hún stýrði málunum og það gerði mamma hennar heitin líka. Það hvarflaði nú ekki að mér að það myndi leiða til þess að hún færi að stjórna heilu ráðuneyti. Hún tekur bæði eftir mömmu sinni og pabba, en þetta hefur hún frá mömmu sinni; að stýra hlutunum, koma í framkvæmd og vera ekkert að mikla neitt fyrir sér. Alltaf jákvæð. Ég er svo glöð og stolt af henni.“

Hildur og Áslaug Arna ásamt flokkssystrum sínum.
Hildur Björnsdóttir, vinkona:

„Þegar ég tók sæti á framboðslistanum í borginni var enginn sem veitti mér betri móttökur en Áslaug. Hún er frábært dæmi um konu sem stendur með öðrum konum. Hún er með skýran pólitískan áttavita og er óhrædd við að fylgja sinni sannfæringu – en hugrekkið er að mínu viti einn stærsti kostur stjórnmálamanns,” segir Hildur.

„Það fer ekki fram hjá nokkrum manni þegar Áslaug gengur inn í herbergi, hún er auðvitað með kraftmikla rödd sem hæfir vel stjórnmálakonu. Við vinkonur hennar köllum það „hina óaðfinnanlega raddbeitingu“ enda dettur okkur ekki í hug að liggja á hvísli með Áslaugu, slíkur er raddstyrkurinn.“

Hildur segir Áslaugu jákvæða og drífandi. „Hún hefur leitað leiða til að nútímavæða flokksstarfið. Hún hefur sýnt að hún getur fengist við flókin viðfangsefni og ekkert virðist henni ofviða. Það er ekki annað hægt en að vera stoltur af þessari kraftmiklu vinkonu. Ég hlakka til að fylgjast með henni í starfi dómsmálaráðherra.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, vinkona og vinnufélagi:

„Áslaug Arna er óhrædd og ábyrg. Hún er töffari sem tekur sig ekki of alvarlega en tekur verkefnin alvarlega. Hún er fáránlega skemmtileg, full af lífi og ein duglegasta manneskja sem ég þekki. Ég er mjög stolt af henni."

Áslaug Arna og Nanna Kristín.
Nanna Kristín Tryggvadóttir, vinkona:

„Mér finnst eins og ég hafi alltaf þekkt Áslaugu. Hún er eins og þriðja systir og ég finn fyrir ógurlegu stolti þegar hún tekur við þessu verkefni, sem ég veit að hún mun sinna af festu og röggsemi,“ segir Nanna. „Áslaug er traust, fyndin og dugleg. Ég þekki engan sem á jafn auðvelt með að laða að sér fólk. Þrátt fyrir þétta dagskrá gefur hún sér alltaf tíma fyrir mann. Hún hefur sérstakt lag á því að sameina. Fyrir nokkru ákváðum við að skella okkur í einkaþjálfun, til að taka okkur á eftir prófkjörs­baráttu með tilheyrandi pitsuáti og sukki. Áslaug, þessi félagslynda týpa, var áður en ég vissi af búin að hóa í átta manna holl af stelpum sem komu allar hver úr sinni áttinni. Þarna hugsaði mín kona út fyrir rammann í annars þéttri dagskrá, að eiga tíma með vinkonum tvisvar í viku kl. 6.30. Ómannlegt markmið. Ef Áslaug væri ekki svona skemmtileg er ég ekki viss um að þetta hefði enst lengi, en þarna varð úr nýr vinahópur sem hittist tvisvar í viku, á ókristilegum tíma, í þrjú ár. Og mikið er alltaf gaman!“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×