Innlent

Ekki tekist að opna fjölda plássa á legudeildum eftir sumarlokanir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ástandið á bráðamóttöku Landspítalans hefur aldrei verið eins slæmt á þessum árstíma og það er nú að sögn yfirlæknis
Ástandið á bráðamóttöku Landspítalans hefur aldrei verið eins slæmt á þessum árstíma og það er nú að sögn yfirlæknis
Ástandið á bráðamóttöku Landspítalans hefur aldrei verið eins slæmt á þessum árstíma og það er nú að sögn yfirlæknis. Ekki hefur tekist að opna ríflega tíu pláss á legudeildum spítalans eftir sumarlokanir. Þetta bitni verst á gömlu fólki með elliglöp.„Það eru jafnvel þrjátíu sjúklingar á bráðamóttökunni sem eru að bíða eftir að komast til innlagnar á sérhæfðum legudeildum. Þetta er verra ástand en var á sama tíma í fyrra og þetta er ástand sem við höfum ekki séð áður nema þegar það hafa verið inflúensufaraldrar,“ segir Jón Magnús Kristinsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni.  Ekki hefur tekist að opna ríflega tíu rúm eftir sumarlokanir. „Eftir sumarlokanir þá geta ekki allar deildir opnað pláss sem voru opin fyrir sumarið. þannig vandinn í raun bara eykst hjá okkur,“ segir Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri á bráðamóttöku. Jón Magnús segir að sjúklingar bíði allt of lengi á bráðamóttökunni. „Við erum að sjá að þessir einstaklingar eru að bíða að meðaltali í fimmtán til tuttugu klukkustundir hver eftir því að komast upp á deildirnar ,“ segir Jón Magnús og bætir við að það skapi mikil þrengsl.„Þetta bitnar verst á þeim sem eru aldraðir og fjölveikir. Ef að einstaklingar eru orðnir aldraðir og eru byrjaðir að fá minnisglöp þá er veruleg hætta á að þeir ruglist við þessar aðstæður,“ segir Jón Magnús. Framkvæmdastjórn Landspítalans ákvað á dögunum að fresta því að afnema svokallaðan vaktaálagsauka um þrjá mánuði en í sumar hafði verið tekin ákvörðun um að framlengja hann ekki í hagræðingarskyni. Ragna segir að ástandið muni versna til muna, verði vaktaálagsaukinn afnumin. „Við fáum kvartanir frá sjúklingum og aðstandendum sem við skiljum mjög vel. Þetta er ekki það ástand sem við viljum bjóða upp á,“ segir Jón Magnús. 

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.