Innlent

Réðst á björgunar­sveitar­manninn sem bjargaði lífi hans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá flugeldasýningu Ljósanætur í Reykjanesbæ fyrir nokkrum árum.
Frá flugeldasýningu Ljósanætur í Reykjanesbæ fyrir nokkrum árum. Mynd/Vísir
Björgunarsveitarmenn björguðu manni sem hafði stungið sér til sunds í smábátahöfninni í Keflavík þegar flugeldasýning Ljósanætur fór fram í gærkvöldi. Þegar manninum hafði verið komið upp úr sjónum réðst hann á einn björgunarsveitarmanninn sem var fluttur slasaður á sjúkrahús.

Greint er frá málinu á vef Víkurfrétta. Þar segir að maðurinn hafi stungið sér í sjóinn við smábátahöfnina í Grófinni í Keflavík seint í gær. Björgunarbátur hafi verið ræstur út og björgunarmenn náð að draga manninn, sem var þá hætt kominn, upp í bátinn.

Við þetta hafi maðurinn reiðst og byrjað að lemja björgunarsveitarmanninn sem hífði hann upp í bátinn. „Björgunarsveitarmaðurinn lá óvígur eftir og var fluttur á sjúkrahús,“ segir í frétt Víkurfrétta. Hlé hafi jafnframt verið gert á flugeldasýningunni vegna atviksins.

Haft er eftir Haraldi Haraldssyni hjá Björgunarsveitinni Suðurnesjum að lífi mannsins hafi verið bjargað í gærkvöldi. Sorglegt sé að maðurinn hafi veitt björgunarsveitarmanninum áverka.

Varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja sem stóð vaktina í gærkvöldi og í nótt segir í samtali við Vísi að maðurinn sem réðst á björgunarsveitarmanninn hafi verið í mjög annarlegu ástandi. Björgunarsveitarmaðurinn var fluttur á sjúkrahús en áverkar hans eru taldir minniháttar. Lögregla á Suðurnesjum varðist allra fregna af málinu þegar Vísir leitaði eftir því í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×