Innlent

Styttist í að holan verði að Húsi íslenskunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra brá á leik við undirritunina.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra brá á leik við undirritunina. Vísir/Vilhelm
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAKs skrifuðu undir samning um byggingu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í morgun. Undirritunin fór fram á sjálfu byggingarsvæðinu sem er líklega þekktasta hola landsins.

Að lokinni undirritun var boðið upp á stutta leiðsögn um svæðið í fylgd Guðrúnar og nöfnu hennar Guðrúnar Nordal, forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Sex ár eru frá fyrstu skóflustungu og áttu áætluð verklok að vera í mars árið 2016. Framkvæmdir hafa tafist af ýmsum ástæðum, aðallega fjárhagslegum. Nú stendur til að ljúka verkinu árið 2023.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fyrir miðju ásamt Guðrúnu Ingvarsdóttur forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins og Karli Andreassen framkvæmdastjóra ÍSTAKs.Vísir/Vilhelm
Lengi hefur staðið til að reisa mannvirki til að varðveita þau íslensku handrit sem skilað var frá Danmörku. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skilaði af sér skýrslu árið 2007 þar sem gert var ráð fyrir húsnæði fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Háskóli Íslands gaf byggingarreit við Arngrímsgötu 5 í Reykjavík, á milli Háskólans og Þjóðarbókhlöðunnar við Suðurgötu.

Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu. Húsið mun sömuleiðis varðveita frumgögn um íslenska menningu; handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn.

Hús íslenskunnar verður á þremur hæðum, auk kjallara undir hluta þess. Opinn bílakjallari verður sunnan og vestan megin við húsið. Byggingin verður sporöskjulaga og formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan verður byggingin klædd opnum málmhjúp. Verkkaupi er mennta- og menningarmálaráðuneytið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.