Innlent

Árskógarmálið heldur áfram fyrir dómi á morgun

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður á Rétti.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður á Rétti. Stöð 2
Samningaviðræður Félags eldri borgara við annan kaupanda hafa ekki gengið eftir. Innsetningarmálið heldur því áfram og verður það þingfest á morgun. Lögmaður kaupandans efast um gildi kaupréttarákvæðis og segir félagið ekki í samningsstöðu.

Einn kaupandi að íbúð við Árskóga er með virkt dómsmál í gangi. Hann krefst þess að fá íbúð sína afhenda enda hafi hann greitt uppsett verð og staðið við sinn hluta kaupsamnings. Samningar hafa ekki náðst við Félag eldri borgara og heldur málið því áfram fyrir dómstólum á morgun, nema eitthvað breytist í millitíðinni.

Lögmaður kaupandans segir Félag eldri borgara ekki í samningsstöðu.

„Ég held að Félag eldri borgara sé ekki í neinni samningsstöðu, það liggur fyrir bindandi kaupsamningur sem ber að virða. Félagið er bundið af þessum kaupsamningi og þannig sé það ekkert í sterkri stöðu,“ sagði Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður annars kaupandans.

Þá hyggst félagið virkja kaupréttarákvæði í lóðaleigusamningi. Lögmaður kaupandans segir ljóst að kaupréttarákvæði almennt virki ekki svona.

„Síðan má efast um gildi þessa kaupréttarákvæðis og þá sérstaklega hvort það sé yfir höfuð heimilt og hægt sé að beita því með þeim hætti sem þau gefa út,“ sagði Sigrún.

Hún segir lítinn samningsvilja hjá félaginu.

„Þetta hefur verið þannig að það hafa veri samningsviðræður vegna þess að umbjóðendur mínir hafa sýnt samningsvilja til að leysa málið en þeir hafa ekki upplifað að viljinn sé nægilegur hinum megin,“ sagði Sigrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×