Erlent

Bandarískur raðmorðingi tekinn af lífi

Gunnar Reynir Valþórsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Gary Ray Bowles myrti sex samkynhneigða karlmenn. Hann kenndi þeim um að hafa eyðilagt samband sitt og kærustu sinnar.
Gary Ray Bowles myrti sex samkynhneigða karlmenn. Hann kenndi þeim um að hafa eyðilagt samband sitt og kærustu sinnar. Fangelsismálayfirvöld í flórída
Raðmorðinginn Gary Ray Bowles var tekinn af lífi í nótt í ríkisfangelsinu í Flórída í Bandaríkjunum.Hann var tekinn af lífi með eitursprautu en hann hafði verið dæmdur til dauða fyrir morðið á Walter Hinton árið 1994. Hinton var sjötta og síðasta fórnarlamb Bowles, sem á átta mánaða tímabili myrti samkynhneigða menn á austurströnd Bandaríkjanna.Bowles játaði morðin á mönnunum fúslega en lögreglan hefur ávallt talið að hann hafi einnig ráðist á konur og myrt, án þess að það hafi verið sannað.Rannsakendur í máli Bowles segja hann hafa verið misnotaðan í æsku, og að hann hafi ungur flúið að heiman. Eftir það hafi hann starfað sem vændiskarl og þjónustað samkynhneigða menn um árabil, áður en hann hóf morðhrinu sína.Bowles hafði sjálfur sagt heift sína í garð samkynhneigðra manna stafa af því að kærasta hans sleit sambandi þeirra þegar hún komst að því að hann stundaði vændi og að hann kenndi samkynhneigðum mönnum um sambandsslitin.Hann var handtekinn í Jacksonville árið 1994 þar sem hann bjó undir fölsku flaggi. Hann hafði áður búið í Daytona Beach í Flórída eftir að hafa flutt þangað eftir fangelsisvist vegna þjófnaðar, ráns, líkamsárásar og nauðgunar. Yfirvöld höfðu gert viðamikla leit að honum þegar hann loksins fannst.Fyrr í þessum mánuði hafnaði hæstiréttur í Flórída áfrýjun hans og var hann tekinn af lífi í nótt. Bowles er 99. fanginn sem tekinn hefur verið af lífi í Flórída frá árinu 1976 og sá þrettándi sem tekinn er af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári, eftir því sem fram kemur í frétt BBC af aftöku hans.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.