Innlent

Fjölskylda flugmanns slegin vegna athafnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ljóðið Myndir af flugmanni eftir Gary Claud Stokor er á minningarsteininum sem reistur var um flugmanninn Grant Wagstaff.
Ljóðið Myndir af flugmanni eftir Gary Claud Stokor er á minningarsteininum sem reistur var um flugmanninn Grant Wagstaff. Fréttablaðið/Auðunn
Gerð minnismerkis og lokuð minningarathöfn um Kanadamanninn Grant Wagstaff við flugstöðina Hyrnu á Melgerðismelum í Eyjafirði er harðlega gagnrýnd af ekkju og börnum Grants. Hann fórst í flugslysi í Barkárdal í Eyjafirði 9. ágúst 2015.

Eigandi og flugmaður vélarinnar sem fórst var Arngrímur Jóhannsson en hann slasaðist talsvert er vélin brotlenti. Til stóð að Grant flygi vélinni síðan vestur um haf.

„Wagstaff-fjölskyldan er gáttuð og harmi slegin yfir því að hver sá sem ákvað að reisa minnismerkið í sumar á Íslandi og hafa samkomu hafi gert það án þess að ráðfæra sig við eða bjóða fjölskyldu Grants,“ segir í yfirlýsingu til Fréttablaðsins frá ekkju flugmannsins og þremur uppkomnum börnum hjónanna.

„Það var afar særandi að heyra af athöfninni í gegn um skilaboð á Facebook eftir að viðburðurinn átti sér stað. Okkur finnst þetta siðferðislega rangt,“ segir í yfirlýsingunni.

„Okkur hefur verið sagt að flugmaðurinn sem flaug vilji hafa samband við okkur þegar málin eru öll frágengin. Því getum við ekki skilið hvers vegna minningarathöfninni var ekki seinkað þar til þá. Það kallar á spurninguna: Hvers vegna núna?“ spyr fjölskylda Grants Wagstaff.

Þótt fjölskyldan nefni ekki Arngrím Jóhannsson á nafn liggur fyrir og er þeim ljóst að það var Arngrímur sem gekkst fyrir gerð og uppsetningu minnismerkisins. Ekkja Grants, Roslyn Wagstaff, rekur nú skaðabótamál gegn Arngrími og tryggingarfélaginu Sjóvá fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Komið hefur fram að dóttir Grants, Sarah Wagstaff, hefur einnig málsókn í undirbúningi.

„Þetta er harmleikur hvernig sem á er litið og hryggir okkur mjög mikið,“ segir fjölskyldan.

Arngrímur vildi ekki svara gagnrýni Wagstaff-fjölskyldunnar er Fréttablaðið leitaði eftir því. Haft var eftir honum í blaðinu Vikudegi í síðustu viku að hann hefði byrjað að hugsa um uppsetningu minningarsteins um Grant skömmu eftir slysið. Það hafi hann viljað gera í minningu góðs vinar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.