Fótbolti

Klopp talar niður væntingar til Liverpool

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Klopp veit að það er búist við miklu af hans liði í vetur.
Klopp veit að það er búist við miklu af hans liði í vetur. vísir/getty
Það verður dregið í riðla fyrir Meistaradeildina í dag. Liverpool á titil að verja og stjóri liðsins, Jürgen Klopp, er spar á stórar yfirlýsingar. Hann gerir ekki endilega ráð fyrir því að endurtaka leikinn.

„Að sjálfsögðu hefði ég ekkert á móti því að komast aftur í úrslitaleikinn en á þessari stundu er ég ekkert viss um að það gerist,“ sagði Klopp en ensku liðin voru best í keppninni á síðustu leiktíð og úrslitaleikurinn var enskur.

„Við eigum sama möguleika og hinir en það er allt og sumt. Ég get ekki séð að ensku liðin verði með yfirburði í ár. Það er fullt af frábærum liðum sem eiga möguleika.“

Liverpool verður í efsta styrkleikaflokki í drætti dagsins ásamt Chelsea og Man. City. Það eru mjög sterk lið í öðrum styrkleikaflokki eins og Real og Atletico Madrid ásamt Tottenham.

„Ég hef aldrei séð annan styrkleikaflokk svona sterkan. Öll þessi lið eiga að vera í fyrsta en það er bara ekki pláss,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×