Íslenski boltinn

Guðbjörg ólétt af tvíburum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðbjörg hefur leikið 64 A-landsleiki.
Guðbjörg hefur leikið 64 A-landsleiki. vísir/valli
Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir leikur ekki fótbolta næstu mánuðina.

Guðbjörg greindi frá því á Twitter í dag að hún væri ólétt af tvíburum.

„Ég er ótrúlega glöð að geta sagt frá því að ég er ófrísk. Í byrjun næsta árs verðum við vonandi orðnar foreldrar tvíbura,“ skrifaði Guðbjörg á Twitter. Kærasta hennar er Mia Jalkerud, samherji hennar hjá Djurgården og næstmarkahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar.



Guðbjörg var lengi frá vegna meiðsla í hásin en sneri aftur í lið Djurgården og íslenska landsliðið í vor.

Hún hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins undanfarin ár og leikið 64 landsleiki.

Sandra Sigurðardóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir hafa verið í landsliðshópnum undanfarin ár og verið Guðbjörgu til halds og trausts. Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson hefur einnig valið Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í íslenska hópinn síðan hann tók við síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×