Innlent

Miðflokksmenn skiluðu inn andsvörum

Birgir Olgeirsson skrifar
Varaforsetar Alþingis taka nú málið fyrir.
Varaforsetar Alþingis taka nú málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Miðflokksmenn skiluðu inn andsvörum til forsætisnefndar vegna álits siðanefndar sem lauk sinni vinnu vegna Klausturmálsins svokallaða í síðustu viku. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru með Klausturmálið til umfjöllunar fyrir forsætisnefnd en Steinunn segir í samtali við Vísi að Miðflokksmenn hafi skilað inn andsvörum í síðustu viku.

Höfðu Miðflokksmenn frest til loka vinnudags á föstudag til að skila inn andsvörum en nú bíður Steinunnar og Haraldar það verkefni að fara yfir gögn málsins. Þegar þau hafa tekið málið fyrir verður álit siðanefndar gert opinbert.

Steinunn vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu en sagðist búast við að tíðinda verði að vænta í vikunni.

Upptökunni af samtali þingmannanna var lekið til fjölmiðla í nóvember síðasta árs þar sem heyrðist til þeirra fara niðrandi orðum um samstarfsmenn sína á þingi og aðra áberandi einstaklinga í þjóðfélaginu. Meðal annars var talað um Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, en hún sagði þeim til syndanna í viðtali við Kastljós.

Erfitt reyndist Alþingi að taka málið fyrir en forsætisnefnd þingsins lýsti sig vanhæfa í málinu og voru því tveir varaforsetar skipaðir tímabundið til að taka á málinu, þau Steinunn Þóra og Haraldur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.