Erlent

Segir af sér sem sendi­herra eftir minnis­blaða­lekann

Sylvía Hall skrifar
Kim Darroch hefur ákveðið að stíga til hliðar.
Kim Darroch hefur ákveðið að stíga til hliðar. Vísir/Getty

Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, hefur sagt af sér í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í tímaritinu Mail on Sunday um helgina. Minnisblöðin innihéldu athugasemdir um Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans.

Sjá einnig: Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

Darroch segist vilja binda enda á vangaveltur varðandi stöðu sína og sagði það vera ómögulegt fyrir sig að sinna starfi sínu eftir lekann.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, harmar afsögn Darroch en hann er einn reyndasti diplómati Bretlands. Í bréfi þar sem hann tilkynnti afsögn sína segir hann ábyrgustu viðbrögðin vera að stíga til hliðar og leyfa skipun nýs sendiherra fyrir Bretlands hönd.

Donald Trump hjólaði bæði í sendiherrann og Theresu May á Twitter í kjölfar lekans. Vísir/Getty

Skiptar skoðanir um minnisblöðin

Ummælin í minnisblöðunum beindust aðallega að sitjandi Bandaríkjaforseta og stjórn hans. Sagði sendiherrann stjórnina vera óstarfhæfa og klunnalega. Þá sagðist hann jafnframt ekki vera bjartsýnn á að það myndi breytast í náinni framtíð.

Trump svaraði ummælunum á Twitter-síðu sinni þar sem hann fór ófögrum orðum um sendiherrann. Hann sagði honum hafa verið „prangað upp á“ Bandaríkin og þau væru ekki sátt við störf hans í þágu Bretlands. Því næst bætti hann við að Darroch væri „mjög heimskur náungi“.

Embættismenn Bretlands brugðust skjótt við og lýsti Jeremy Hunt, utanríkisráðherra, því yfir að Trump nyti stuðnings ríkisstjórnarinnar. Hann væri ánægður með samstarf þeirra á milli og trúði því að stjórn Trump væri skilvirk og öflug.

Theresa May tók í svipaðan streng, sagði skoðanir Darroch hvorki endurspegla skoðanir sínar né ríkisstjórnarinnar en það væri mikilvægt að embættismenn gætu tjáð sínar skoðanir á stjórnum þeirra landa sem þeir starfa í á hreinskilinn hátt í trúnaðarskjölum. Hún segir eftirsjá af Darroch en hún hafði lýst því yfir að hann nyti stuðnings ríkisstjórnarinnar sem væri þakklát fyrir „ævilangt“ starf hans í þágu Bretlands.


Tengdar fréttir

Gagn­rýnir May og segir sendi­herrann vera heimskan

Donald Trump Bandaríkjaforseti fer ófögrum orðum um Kim Darroch, sendiherra Bretlands, og forsætisráðherrann Theresu May í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í breska dagblaðinu Mail on Sunday.

Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, er harðorður í garð Bandaríkjaforseta og segir hann og stjórn hans vera vanhæfa, klunnalega og óstarfhæfa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.