Innlent

Lögmaður slapp naumlega við réttarfarssekt fyrir gífuryrði

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Dómari við héraðsdóm átaldi lögmanninn
Dómari við héraðsdóm átaldi lögmanninn Vísir/Hanna

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur átaldi lögmann Þingvallaleiðar ehf., Benedikt Egil Árnason, fyrir ósæmileg gífuryrði í garð gagnaðila síns í úrskurði um lögbannskröfu í vikunni. Lögmaðurinn vísaði til nokkurra ferðaþjónustufyrirtækja sem hústökuaðila í húsnæði sem þau hafa á leigu.

Ágreiningurinn sem varð tilefni málaferlanna varðar húsnæði sem Þingvallaleið og einn varnaraðila málsins eiga í óskiptri sameign og starfsemi leigjenda þeirrar sameignar, sem einnig eru ferðaþjónustufyrirtæki. Þingvallaleið krafðist lögbanns á starfsemi leigjendanna í sameigninni en kröfunni var synjað af sýslumanni og var sú synjun kærð til héraðsdóms.

Í greinargerð sinni vísaði lögmaðurinn til leigjendanna sem hústökuaðila og gerði lögmaður umræddra fyrirtækja alvarlegar athugasemdir við „ósæmilega orðanotkun“ lögmannsins. Fram kemur í úrskurðinum að Benedikt hafi ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar eða draga orð sín til baka og sá dómarinn ástæðu til að átelja lögmanninn fyrir háttsemi hans. Vísað er til siðareglna lögmanna og áréttað að orðanotkunin uppfylli tæpast skyldur lögmanns til að sýna gagnaðilum sínum tilhlýðilega virðingu.

„Þá verður að telja að slíkt orðfæri sé með öllu ónauðsynlegt til að koma málstað sóknaraðila sem best til skila og gífuryrði almennt fremur fallin til hins gagnstæða. Þá verður í ljósi framangreinds ekki séð hvers vegna lögmaður getur ekki sinnt afsökunarbeiðni ef sýnt er að gagnaðila eða lögmanni er greinilega misboðið,“ segir í úrskurðinum, en jafnframt tekið fram að orðanotkunin sé þó ekki svo ósæmileg að Þingvallaleið ehf. eða lögmaður félagsins verðskuldi réttarfarssekt vegna hennar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.