Fótbolti

Rúnar Páll: Drullufúll að hafa fengið þetta mark á okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll var ánægður með frammistöðu Stjörnunnar gegn Levadia Tallinn.
Rúnar Páll var ánægður með frammistöðu Stjörnunnar gegn Levadia Tallinn. vísir/daníel
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki fullkomlega sáttur með 2-1 sigurinn á Levadia Tallinn í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Frammistaða Stjörnumanna var honum að skapi en hann var svekktur með markið sem þeir fengu á sig á 79. mínútu.

„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur er ég drullufúll að hafa fengið þetta mark á okkur,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi eftir leik.

„Það var gott að vinna þetta lið. Það var mikill kraftur í okkur, við spiluðum heilt yfir mjög vel og fengum fullt af færum. Við vorum reyndar heppnir að fá ekki á okkur mark í byrjun leiks en vorum heilt yfir með góða stjórn á honum og unnum hann. Maður á að vera ánægður með það. Við þurfum að spila eins vel og við gerðum í kvöld í útileiknum.“

Stjarnan fékk vítaspyrnu, sem fór forgörðum, en hefði átt að fá aðra þegar fyrirliði Levadia, Dmitri Kruglov, varði skalla Martins Rauschenberg með hendi á línu.

„Ég sá það ekki en viðbrögð leikmannanna voru þannig að þetta væri klárt víti. Það er svekkjandi en þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem mörk eru tekin af okkur. Við erum orðnir vanir þessu. En við erum 2-1 yfir en það var helvíti fúlt að fá útivallarmark á sig. Vonandi verður þetta ekkert kjaftæði eftir viku,“ sagði Rúnar Páll.

Hann var ánægður með mörkin tvö sem Stjarnan skoraði í leiknum.

„Þetta voru frábær mörk og frábærlega afgreitt hjá Þorsteini [Má Ragnarssyni] eftir góðar sóknir. Við fengum líka fleiri og klúðruðum því miður víti. Það er mjög óvanalegt hjá Hilmari [Árna Halldórssyni] en það geta allir klikkað. Ég er ánægður með leikinn og frammistöðu okkar og það var gott að vinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×