Fótbolti

Rúnar Páll: Drullufúll að hafa fengið þetta mark á okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll var ánægður með frammistöðu Stjörnunnar gegn Levadia Tallinn.
Rúnar Páll var ánægður með frammistöðu Stjörnunnar gegn Levadia Tallinn. vísir/daníel

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki fullkomlega sáttur með 2-1 sigurinn á Levadia Tallinn í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Frammistaða Stjörnumanna var honum að skapi en hann var svekktur með markið sem þeir fengu á sig á 79. mínútu.

„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur er ég drullufúll að hafa fengið þetta mark á okkur,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi eftir leik.

„Það var gott að vinna þetta lið. Það var mikill kraftur í okkur, við spiluðum heilt yfir mjög vel og fengum fullt af færum. Við vorum reyndar heppnir að fá ekki á okkur mark í byrjun leiks en vorum heilt yfir með góða stjórn á honum og unnum hann. Maður á að vera ánægður með það. Við þurfum að spila eins vel og við gerðum í kvöld í útileiknum.“

Stjarnan fékk vítaspyrnu, sem fór forgörðum, en hefði átt að fá aðra þegar fyrirliði Levadia, Dmitri Kruglov, varði skalla Martins Rauschenberg með hendi á línu.

„Ég sá það ekki en viðbrögð leikmannanna voru þannig að þetta væri klárt víti. Það er svekkjandi en þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem mörk eru tekin af okkur. Við erum orðnir vanir þessu. En við erum 2-1 yfir en það var helvíti fúlt að fá útivallarmark á sig. Vonandi verður þetta ekkert kjaftæði eftir viku,“ sagði Rúnar Páll.

Hann var ánægður með mörkin tvö sem Stjarnan skoraði í leiknum.

„Þetta voru frábær mörk og frábærlega afgreitt hjá Þorsteini [Má Ragnarssyni] eftir góðar sóknir. Við fengum líka fleiri og klúðruðum því miður víti. Það er mjög óvanalegt hjá Hilmari [Árna Halldórssyni] en það geta allir klikkað. Ég er ánægður með leikinn og frammistöðu okkar og það var gott að vinna.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.