Jóhann Þór Jóhannsson, formaður barna- og unglingaráðs hjá Breiðabliki, segir Símamótið langstærsta fótboltamót sem haldið er hér á landi og það hafi farið stækkandi. Þannig séu fleiri þátttakendur í ár heldur en í fyrra.
Keppni hófst klukkan hálfníu í morgun og í kvöld er svo setningarathöfnin. Hún er vanalega á fimmtudagskvöldið en vegna Evrópuleiks hjá meistaraflokki karla í Breiðabliki verður mótið sett formlega í kvöld. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setur mótið og Friðrik Dór heldur svo uppi fjöri.

Jóhann segir að svona mót gæti aldrei gengið ef ekki væri fyrir dyggan stuðning sjálfboðaliða.
„Foreldrar í Breiðabliki fá niðurgreiðslu á æfingagjöldum fyrir að taka vakt á mótinu. Við tókum þetta saman hvað þetta er mikil vinna og þetta eru 150 dagsverk sem verið er að manna yfir helgina,“ segir Jóhann.
Keppni lýkur um þrjúleytið á sunnudag. Síminn sýnir beint frá mótinu og þá má nálgast allar upplýsingar um úrslit og leiki á vefsíðu mótsins.

