Innlent

Með hundrað bit eftir lúsmý á Flúðum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Árni Þór Hilmarsson, íbúi á Flúðum og íþróttakennari, sem er illa bitin eftir lúsmý. Hann hefur haft í nógu að snúast um helgina því hann stýrði körfuboltabúðum Hrunamanna þar sem um 140 krakkar voru skráðir til leiks.
Árni Þór Hilmarsson, íbúi á Flúðum og íþróttakennari, sem er illa bitin eftir lúsmý. Hann hefur haft í nógu að snúast um helgina því hann stýrði körfuboltabúðum Hrunamanna þar sem um 140 krakkar voru skráðir til leiks. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Árni Þór Hilmarsson, íbúi á Flúðum lætur lúsmýið  á staðnum ekki trufla sig þrátt fyrir að hann hafi verið bitinn hundrað sinnum.  Mest var um mýið í júní, svo bar ekkert á mýinu fyrstu dagana í júlí en nú virðist það vera komið á fullt aftur.

Lúsmý hefur verið áberandi í uppsveitum Árnessýslu í sumar, ekki síst á sumarbústaðasvæðum í Biskupstungum og í sveitunum þar  í kring. Íbúar í Hrunamannahreppi hafa líka fengið að  kenna á lúsmýinu, ekki síst á Flúðum þar sem töluvert hefur verið um fluguna. Mýið lætur suma alveg vera en aðrir fá vel að kenna á því, það þekkir Árni Þór Hilmarsson á Flúðum, sem er mjög skrautlegur á líkamanum eftir öll bitin.

„Ég var bitinn hér í byrjun júní þar sem ég fékk fjörutíu bit. Ég er búin að smyrja mig allan af þessum skordýrafælum og hitt og þetta og taldi mig vera góðan, tók B-vítamín og alla þessa galdra, sem átti að taka en svo kom flugan bara aftur og réðst á mig þar sem maður sefur upp í rúmi algjörlega grunlaus og saklaus og étur mann upp til agna“, segir Árni.

Árni segir töluverðan kláða fylgja bitunum og aðal óþægindin séu fyrstu tvo dagana eftir bit en hann lætur ástandið ekki trufla sig og segir íbúa á Flúðum og næsta nágrenni ótrúlega rólega og yfirvegaða yfir ástandinu enda þýði ekki að fara á taugum yfir ástandinu.

En eru margir bitnir á svæðinu?  „Já, maður er alltaf að heyra af einhverjum og maður sér það þegar fólk fer á stuttbuxurnar, það er alltaf gott veður á Flúðum, þá sér maður þetta á handleggjum og fótunum á fólki“.

Árni sem fór til Finnlands í vor hafði heyrt af mikilli flugu þar og passaði að vera vel á varðbergi þar og loka gluggum og smyrja sig vel en þar fékk hann bara tvö bit en á Flúðum eru þau orðin hátt í hundrað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×