Fótbolti

Valur mætir búlgörsku meisturunum í Evrópudeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur átti ekki mikla möguleika gegn Maribor í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Valur átti ekki mikla möguleika gegn Maribor í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. vísir/bára

Íslandsmeistarar Vals mæta Búlgaríumeisturum Ludogorets Razgrad í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Bæði liðin féllu úr leik í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Valur tapaði fyrir Maribor, 5-0 samanlagt, á meðan Ludogorets laut í lægra haldi fyrir Ferencváros, 5-3 samanlagt.

Ludogorets hefur unnið búlgarska meistaratitilinn átta sinnum í röð, eða öll tímabilin sem liðið hefur leikið í efstu deild. Auk þess hefur Ludogorets tvisvar sinnum orðið búlgarskur bikarmeistari.

Ludogorets hefur einnig náð góðum árangri í Evrópukeppnum á undanförnum árum. Liðið hefur tvisvar sinnum komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og einu sinni alla leið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Ludogorets hefur leikið 76 Evrópuleiki en aldrei mætt íslensku liði.

Í bæði skiptin sem Ludogorets komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar drógust Ernirnir, eins og félagið er kallað, með ensku liði í riðli. Tímabilið 2014-15 lenti Ludogorets með Liverpool í riðli og gerði jafntefli í heimaleiknum, 2-2. Liverpool vann á Anfield, 1-2. Tímabilið 2016-17 lenti Ludogorets með Arsenal í riðli og tapaði báðum leikjunum, 6-0 úti og 2-3 heima.

Fyrri leikur Vals og Ludogorets fer fram á Hlíðarenda fimmtudaginn 25. júlí. Sá seinni fer fram í Razgrad viku seinna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.