Innlent

Breyta upplýsingalögum að tillögu atvinnulífsins

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Eggjaframleiðandinn Brúnegg var mikið til umfjöllunar árið 2015 vegna dapurlegs aðbúnaðar dýra á hænsnabúi félagsins.
Eggjaframleiðandinn Brúnegg var mikið til umfjöllunar árið 2015 vegna dapurlegs aðbúnaðar dýra á hænsnabúi félagsins. Fréttablaðið/GVA
Forsætisráðherra kynnir nú á samráðsgátt stjórnvalda áform um breytingar á upplýsingalögum sem koma til móts við tillögur Samtaka atvinnulífsins í þágu einkahagsmuna fyrirtækja. Tillögur SA voru kynntar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í aðdraganda nýsamþykktra breytinga á lögunum.

Efnislega lúta áformin að því að sett verði ákvæði í upplýsingalög um skyldu stjórnvalda til að leita afstöðu þriðja aðila áður en stjórnvald tekur afstöðu til beiðna um upplýsingar sem varða hann.

Einnig er áformað í samræmi við tillögur SA að varði úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál þriðja aðila með einhverjum hætti verði nefndinni skylt að birta honum úrskurðinn enda þótt hann eigi ekki aðild að málinu.

Þá er í þriðja lagi stefnt að því að veita þriðja aðila sérstakan rétt til að krefjast þess að réttaráhrifum úrskurða úrskurðarnefndarinnar um afhendingu upplýsinga verði frestað vilji hann bera gildi hans undir dómstóla.

Til að varpa ljósi á hverjir geti talist til ‚þriðja aðila‘ í þessu samhengi má nefna að eggjaframleiðandinn Brúnegg ehf. hefði talist þriðji aðili í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sem skyldaði Matvælastofnun til að veita fréttamanni aðgang að upplýsingum um aðbúnað og fjölda dýra í húsakynnum eggjaframleiðandans árið 2015. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×