Fótbolti

Messi tók ekki við bronsmedalíunni og sakaði dómarana um spillingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi lét gamminn geysa eftir leik.
Messi lét gamminn geysa eftir leik. vísir/getty
Lionel Messi var rekinn af velli í fyrsta sinn í 14 ár og aðeins í annað skiptið á ferlinum þegar Argentína bar sigurorð af Síle, 2-1, í leiknum um 3. sætið í Suður-Ameríkukeppninni í gær.

Skömmu fyrir hálfleik voru fyrirliðar liðanna, Messi og Gary Medel, sendir í sturtu. Sá argentínski gerði þó lítið til að verðskulda rauða spjaldið.

Eftir leikinn í Sao Paolo neitaði Messi að taka við bronsmedalíunni sinni. Þess í stað gagnrýndi hann dómgæsluna í Suður-Ameríkukeppninni, líkt og hann gerði eftir tapið fyrir heimaliði Brasilíu, 2-0, í undanúrslitunum.

„Dómarinn brást of hart við. Gult spjald á okkur báða hefði verið nægjanleg refsing. Ég er mjög reiður því ég átti ekki skilið að fá rauða spjaldið því mér fannst við vera að spila vel. En eins og ég sagði er spillingin mikil. Þeir vildu ekki leyfa okkur að fara í úrslitaleikinn,“ sagði Messi.

Hann sagði ennfremur að með rauða spjaldinu hafi honum verið refsað fyrir ummæli sín eftir leikinn gegn Brasilíu.

„Já, því miður. Þú mátt ekki vera heiðarlegur og segja hvernig hlutirnir ættu að vera,“ sagði Messi sem verður í banni í fyrsta leik Argentínu í undankeppni HM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×