Erlent

Lögreglu veitt leyfi til að leita uppi þingmenn sem mæta ekki til starfa

Andri Eysteinsson skrifar
Ríkisþingið í Salem í Oregon
Ríkisþingið í Salem í Oregon Getty/Education Images
Lögreglunni í Oregonríki í Bandaríkjunum hefur verið veitt heimild til þess að hafa upp á ellefu þingmönnum Repúblikanaflokksins á ríkisþinginu sem ekki hafa mætt til starfa undanfarið til þess að reyna að klekkja á stjórnarþingmönnum Demókrata. BBC greinir frá.

Demókrataflokkurinn er í meirihluta í ríkinu og hugðust þingmenn flokksins leggja fram og samþykkja nýja löggjöf á sviði loftslagsmála með löggjöfinni verða settar ríkari kröfur íbúa og fyrirtæki að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig er gert ráð fyrir því að með lögunum hækki eldsneytisverð í ríkinu. Repúblikanar á þingi segja þetta brjóta gegn jafnræðisreglum því þetta komi frekar niður á Oregonbúum í dreifbýli.

30 þingmenn sitja í öldungadeild ríkisþingsins og skipa Demókratar 18 þeirra en 20 þingmenn þurfa að vera viðstaddir til þess að atkvæðagreiðsla geti farið fram. Því ákváðu ellefu repúblikanar að yfirgefa þingsalinn síðasta fimmtudag og hafa ekki látið sjá sig síðan.

Ríkisstjóri Oregon, Kate Brown, hefur nú veitt lögreglu heimild til þess að elta þá uppi. „Það er með öllu óásættanlegt að þingmenn Repúblikana, snúi bökum sínum að kjósendum sínum með þessum hætti, þeir verða að snúa aftur og sinna skyldum sínum, sem þeir voru jú kosnir til þess að sinna,“ sagði Brown




Fleiri fréttir

Sjá meira


×