Lífið

Íhugaði að ræða ummæli sín um Markle við Harry

Sylvía Hall skrifar
Trump heimsótti Buckingham-höll á mánudag.
Trump heimsótti Buckingham-höll á mánudag. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir heimsbyggðina hafa misskilið ummæli sem hann lét falla um Meghan Markle, hertogaynjuna af Sussex. Í viðtali við The Sun á dögunum sagði hann hana vera „illkvittna“. Þetta kemur fram á vef People.



Í viðtali við Piers Morgan útskýrði hann ummæli sín á þann veg að hann hafi ekki átt við að hún væri illkvittin heldur ummæli sem hún lét falla um hann í viðtali í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Þar sagði hún Trump vera karlrembu sem færi ekki leynt með það.



Sjá einnig: Trump segir Meghan Markle vera „illkvittna“



„Hún var illkvittin við mig, og það er allt í lagi fyrir hana að vera illkvittin,“ sagði Trump. Hann sagði það sama ekki gilda um hann, hann mætti ekki vera illkvittinn við hana og neitar að hafa verið það.



Þá segist hann hafa sterklega íhugað að minnast á málið við Harry Bretaprins þegar þeir hittust á mánudag í Buckingham-höllinni þar sem kvöldverður var haldinn, forsetanum til heiðurs.



„Við töluðum ekki um þetta. Ég ætlaði samt að gera það því þetta var sett fram á rangan hátt,“ sagði Trump við Morgan.



Hann segir ummæli Markle ekki hafa reitt sig til reiði heldur þvert á móti hafi hann óskað Harry til hamingju með frumburð þeirra hjóna sem fæddist þann 6. maí síðastliðinn. Markle gat því ekki verið viðstödd kvöldverðinn en Harry mætti fyrir hönd þeirra beggja.



„Mér finnst hann frábær náungi. Konungsfjölskyldan er mjög viðkunnanleg,“ sagði forsetinn um Harry og fjölskylduna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×