Fótbolti

Gylfi: Verð hjá Everton í einhver ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er nokkuð ánægður með nýliðið tímabil með Everton og stefnir á að vera áfram í herbúðum Bítlaborgarfélagsins næstu árin.

„Ég er mjög sáttur, fyrir utan einhverja nokkra mánuði þegar við töpum held ég fjórum, fimm leikjum í röð. Við endum tímabilið nokkuð vel, sérstaklega á móti stóru liðunum,“ sagði Gylfi Þór við Henry Birgi Gunnarsson á landsliðsæfingu í dag.

Gylfi skoraði 13 mörk í deildinni á tímabilinu sem er hans besta markatala á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Þar að auki lagði hann upp sex mörk fyrir félaga sína.

„Heilt yfir litið var þetta ágætistímabil, vonandi verður næsta betra.“

„Við þurfum að styrkja okkur og bæta okkur sem lið. Liðin í kringum okkur munu kaupa leikmenn og eyða pening.“

„Ég er mjög sáttur hjá Everton og verð þarna í einhver ár held ég.“

Ísland á tvo gríðarlega mikilvæga leiki í undankeppni EM 2020 sem liðið verður helst að vinna ætli liðið að komast í lokakeppnina. Hvernig er standið á Gylfa fyrir þessa leiki?

„Ég hef sjaldan verið betri. Nýkominn úr fríi og búinn að æfa vel með landsliðinu í tíu daga.“

Hjálpaði golfið í fríinu til við það? „Já, maður mýkist allur upp í golfinu,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson léttur í lund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×