Fótbolti

Gareth Southgate: Mjög stórt ef okkur tekst að byrja á því að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Southgate.
Gareth Southgate. Skjámynd
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, talaði um mikilvægi þess fyrir hans lið að vinna Þjóðadeildina og fylgja þar með eftir góðum árangri á heimsmeistaramótinu í Rússlandi þar sem enska landsliði fór alla leið í undanúrslitin.

Gareth Southgate mætir með lið sitt á móti Hollendingum í kvöld í seinni undanúrslitaleik Þjóðadeildarinnar. Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 18.45 og þar mun sigurvegarinnar tryggja sér sæti í úrslitaleiknum á móti Portúgal á sunnudaginn.

Gareth Southgate ræddi leikinn við Holland á blaðamannafundi í gær.

„Við vitum að heimsmeistarakeppnin er stærst og svo kemur Evrópukeppnin en þetta er ný keppni og við viljum fara að venja okkur við það að fara vinna titla,“ sagði Gareth Southgate.

Enska landsliðið sló í gegn á HM í Rússlandi síðasta sumar og liðið er fullt af ungum spennandi framtíðarleikmönnum sem ættu að geta haldið liðinu í titilbaráttunni á næstu stórmótum.

Liðið tapaði bæði undanúrslitaleiknum og leiknum um þriðja sætið á HM 2018 og núna vill Gareth Southgate meira.

„Það er kominn tími á það fyrir okkur að fara að berjast um titlana og þetta er kjörið tækifæri til að sýna hversu langt verið erum komnir sem lið. Það er vissulega merkilegt að sjá okkur vera komnir alla þessa leið en við eigum samt langa leið eftir enn þá,“ sagði Gareth Southgate.

„Það væri mjög stórt fyrir okkur í enska landsliðinu ef okkur tekst að byrja á því að vinna titla og förum að vinna stóra leiki. Það er einmitt vaninn sem við viljum og þar viljum við líka að væntingarnar séu,“ sagði Southgate.

Hér fyrir neðan má sjá hvað hann sagði á blaðamannafundinum í gær.



Klippa: Gareth Southgate: Mjög stórt ef okkur tekst að byrja á því að vinna titla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×