Innlent

Bræðurnir ungu höfðu gengið 4,5 kílómetra áður en þeir fundust á leikvelli

Birgir Olgeirsson skrifar
Fóru af heimili sínu klukkan hálf sjö en fundust rétt fyrir tíu.
Fóru af heimili sínu klukkan hálf sjö en fundust rétt fyrir tíu. Vísir/Vilhelm
Bræðurnir ungu sem leitað var að á Akureyri í morgun höfðu gengið um 4,5 kílómetra áður en þeir fundust á leikvelli við Naustaskóla um klukkan hálf tíu. Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri á Akureyri, segir í samtali við Vísi að drengirnir hafi yfirgefið heimili sitt skammt frá Glerártorgi á reiðhjólum en skildu þau eftir við Glerártorg.

Lögreglan notaðist við upptökur úr eftirmyndavélum til að rekja slóð drengjanna, sem eru fimm og sex ára gamlir, sem héldu för sinni áfram fótgangandi suður Glerárgötu í átt að Drottningarbraut.

Ákvað lögreglan að lýsa eftir drengjunum á Facebook rétt eftir klukkan níu í morgun en eftir það bárust upplýsingar frá vegfarendum um för drengjanna sem höfðu farið suður að Skautahöllinni á Akureyri og þaðan upp í Naustahverfi.

Fósturfaðir tók þátt í leitinni að drengjunum með lögreglunni en hann fann þá á leikvelli við Naustaskóla rétt fyrir klukkan 10 í morgun.

„Þeir hafa bara ákveðið þegar þeir vöknuðu að fara út að leika því það var kominn dagur í þeirra huga, glampandi sól og milt veður,“ segir Hermann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×