Innlent

Útlit fyrir verulegan samdrátt í flugi og sætaframboði í millilandaflugi á næstu mánuðum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Útlit er fyrir að sætaframboð dragist verulega saman í millilandaflugi á næstu mánuðum.
Útlit er fyrir að sætaframboð dragist verulega saman í millilandaflugi á næstu mánuðum. Fréttablaðið/Anton Brink

Útlit er fyrir að flug um Keflavíkurflugvöll dragist saman um fjórðung og sætaframboð um tæp þrjátíu prósent frá maí til október borið saman við sama tímabil í fyrra. Isavia hefur hins vegar ekki gefið út nýja farþegaspá eftir fall WOW AIR sem flaug þriðju hverja flugferð á síðasta ári.

Forsvarsmenn í ferðaþjónustunni hafa sagt frá því í fréttum okkar að nú sé gert ráð fyrir enn meiri samdrætti í greininni en áður hafði verið spáð.  Í hádegisfréttum okkar sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri að búast mætti við samdrætti uppá 15 til 20 prósent milli ára.

Auðveldara verður hins vegar að gera áætlanir þegar farþegaspá Isavia liggur fyrir en hún hefur ekki verið uppfærð eftir fall WOW AIR.

Þegar flugáætlun Isavia er skoðuð er hins vegar hægt að spá í spilin. Þar kemur fram að flug um Keflavík dregst saman um 25% milli ára á tímabilinu 1. maí til 1. október og framboð á flugsætum dregst saman um tæp þrjátíu prósent á sama tímabili.

Þetta er svipað hlutfall og Wow air var með en félagið flaug um þrjátíu prósent allra flugferða um Keflavík á síðasta ári og var Icelandair með um 45% alls flugs á þeim tíma.

Þá er hægt að skoða hversu mörg flugfélög fljúga til landsins í sumar en þau verða 27, einu færra en í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. 

Af þeim hefur EasyJet gefið út að það ætli að halda áfram að draga úr flugi til landsins. Flugfélagið Transavia hefur hinsvegar gefið út að það ætli að fjölga ferðum til Amsterdam og París. Wizz Air fjölgar ferðum til London og Varsjár og United Airlines hefur á ný áætlunarflug til New York í sumar. Þá ætlar flugfélagið Air Baltic  að bæta við þremur ferðum á viku milli Keflavíkur og Riga frá júní til ágúst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.