Fótbolti

Dybala segir orð bróður síns bull: Ekki á leið til United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dybala fagnar ítalska meistaratitlinum.
Dybala fagnar ítalska meistaratitlinum. vísir/getty
Paulo Dybala, leikmaður Juventus, hefur neitað því að hann sé á förum frá Juventus eftir að bróðir hans ýjaði að því að hann gæti verið á förum frá ítölsku meisturum.

Gustavo Dybala, bróðir Paulo, sagði í síðustu viku að Inter Milan og Manchester United gætu verið líklegur áfangastaður Paulo en hann hefur nú tjáð sig um ummæli bróður síns.

„Bróðir minn talaði fyrir sjálfan sig og ég talaði við félagið og Fabio Paratico. Þeir vita hvað ég er að hugsa,“ sagði Dybala en Paratico er yfirmaður knattspyrnumála hjá Juventus.

„Ég vil vera áfram hjá Juventus á næstu leiktíð. Ég vil halda áfram að spila hérna. Ég er ánægður og ber treyju Juventus með stolti. Juventus gerir upp við sig og svo byggjum við upp liðið í kringum þjálfarann sem kemur.“

Massimiliano Allegri er hættur sem þjálfari Juventus og enn er ekki víst hver tekur við liðinu. Dybala vill að sóknarbolti verði við völd á næsta tímabili en að titlarnir haldi einnig áfram að skila sér í hús.

„Félagið veit enn ekki hver tekur við en við vonumst eftir því að það verði sterkur karakter sem leiðir okkur í að vinna allt,“ sagði Dybala sem kvaddi Allegri með söknuði.

„Ég kvaddi Allegri og þakkaði honum því hann er eini þjálfarinn sem ég hafði hér. Við erum allir þakklátir honum fyrir hvað hann gerði fyrir félagið.“

„Félagið vill sjá okkur spila sóknarbolta en það mikilvægasta er að vinna leikina. Félagið hugsar þannig og leikmennirnir líka,“ sagði Dybala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×