Innlent

Þriðja skipverjanum sagt upp

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sporðið skorið af hákarlinum.
Sporðið skorið af hákarlinum.
Stjórn Sæfells hf. hefur sagt upp þriðja skipverjanum á Bíldsey SH eftir að myndbandsbrot þar sem sjá má skipverja skera sporð af hákarli og sleppa honum lausum komst í birtingu.

Skipverjunum tveimur, sem sjá má á myndbandinu, var sagt upp í gær, en Gunnlaugur Auðunn Árnason, sem situr í stjórn útgerðarfélagsins Sæfells, sem gerir Bíldsey út, staðfestir í samtali við Vísi að þriðja skipverjanum hafi einnig verið sagt upp.

Fjórir skipverjar voru um borð þegar myndbandið var tekið upp en hinum fjórða hefur ekki verið sagt upp. Segir Gunnlaugur að öllum þeim sem komið hafi nálægt málinu hafi verið sagt upp.

Myndskeiði af atvikinu var dreift víða á samfélagsmiðlum í gær en hákarlinn flæktist í línunni og brugðu skipverjar á það ráð að skera af honum sporðinn til að losa hann. Hákarlinn sást þá synda í burtu og blæddi mikið úr sárinu. Fréttastofa hefur gert endurteknar tilraunir til að ná í skipverjana tvo sem í sést á myndbandinu án árangurs

Vísir greindi frá því í dag að fulltrúi Matvælastofnunar hafi rætt við skipverjann á Bíldsey SH sem skar sporðinn af hákarlinum. Viðkomandi á yfir höfði sér stjórnvaldssekt, málið verður kært til lögreglu eða látið niður falla. Matvælastofnun beinir spjótum sínum fyrst og fremst að þeim aðila sem framkvæmdi verknaðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×