Innlent

Helga Vala um EES-sam­starfið: Getum ekki leyft okkur að virða gagn­aðila einskis þegar okkur hentar

Atli Ísleifsson skrifar
Helga Vala Helgadóttir er þingkona Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir er þingkona Samfylkingarinnar. vísir/vilhelm
„Getum við vænst virðingar ef okkur er ómögulegt að sýna öðrum hið sama,“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Fjallaði hún þar um fullveldið og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Án þess að tiltaka nákvæm dæmi setti Helga Vala út á hvernig rætt er um alþjóðasamstarf hér á landi og gagnaðila Íslendinga. Má leiða líkur að því að þingmaðurinn hafi þarna verið að setja út á orðræðu Miðflokksmanna og fleiri um þriðja orkupakkann og EES-samstarfið.

Fúyrðaflaumur og vandlætingar

Helga Vala sagði að EES-samstarfið hafi án nokkurs vafa aukið hagsæld á Íslandi. Ekki væri úr vegi að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til þess af alvöru hvað fælist í fullri aðild að því þjóðarbandalagi sem Evrópusambandið væri.

„En þegar við erum í viðlíka samstarfi, þá getum við einfaldlega ekki leyft okkur að virða gagnaðila einskis þegar okkur hentar. Hvers virði er slík samvinna ef samstarfsaðilinn byrjar að atyrða mann um leið og hann snýr sér við?“

Áfram hélt Helga Vala og spurði hvaða skilaboð það væru til íslensks almennings mæta prúðbúin á fundi um allan heim, heimsækja erlend fyrirmenni, bjóða þeim til fundar við okkur hér á landi, en þegar komi að skuldbindingum íslenska ríkisins innanlands sem erlendis þá hefjist hér fúkyrðaflaumur og vandlætingar um það hvað þetta sé allt ömurlegt og ekki til neins gagns.

„Hvaða trúverðugleiki er í slíku samstarfi og hvaða sjálfsvirðing? Til hvers að mæta til alþjóðasamstarfs ef við stöndum ekki með því? Er það dæmi um fullvalda ríki sem gengur til samstarfs af fúsum og frjálsum vilja?

Samninga skal halda, um það er ekki deilt. Vilji maður ekki halda samstarfi áfram er það ekki leiðin að brjóta sáttmála og virða samninga að vettugi heldur ber stjórnvöldum, til að halda virðingu ríkisins hvort tveggja heimavið sem og á alþjóðavettvangi, að slíta samvinnu ellegar standa með henni og taka þátt. Við þurfum ekki að óttast ef við af heilindum tökum þátt í samstarfinu,“ sagði Helga Vala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×