Erlent

Íhaldsflokkurinn missir 1334 menn

Andri Eysteinsson skrifar
Flokkar May og Corbyn fara illa út úr sveitastjórnarkosningunum.
Flokkar May og Corbyn fara illa út úr sveitastjórnarkosningunum. Vísir
Breski íhaldsflokkurinn fer illa út úr sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru í Bretlandi í vikunni. Frjálslyndir Demókratar bættu hins vegar við sig flestum mönnum.

Kosið var um 8798 sæti í sveitarstjórnum víðs vegar um Bretlandseyjar. Íhaldsflokkurinn, undir stjórn forsætisráðherrans Theresu May fór illa út úr kosningunum og missti 1334 sveitarstjórnarmenn frá síðustu kosningum, flokkurinn missti einnig meirihluta sinn í 44 sveitarstjórnum.

Flokkurinn er þó enn stærstur á landsvísu með yfir 3500 sveitarstjórnarmenn og eru í meirihluta í 93 sveitarstjórnum.

Verkamannaflokkurinn tapaði einnig mönnum og meirihlutum, fulltrúum Verkamannaflokksins í sveitastjórnum fækkaði um 82 í kosningunum og eru þeir nú 2023. Þá missti flokkurinn meirihluta sinn í sex sveitarfélögum af 66.

Frjálslyndir demókratar gátu leyft sér að gleðjast yfir niðurstöðu kosninganna en flokkurinn bætti við sig 703 mönnum og náði meirihluta í 18 sveitarfélögum. Minni flokkar nutu góðs af fylgistapi risanna tveggja og bættu græningjar við sig 194 mönnum en Öfgahægri flokkurinn UKIP missti 145 menn.

Theresa May, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir störf sín undanfarnar vikur og mánuði og er ljóst að niðurstöður kosninganna munu ekki létta á álaginu á forsætisráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×