Erlent

Dauðarefsing bíður Begum haldi hún til Bangladess

Andri Eysteinsson skrifar
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum.
Shamima Begum fór til Sýrlands árið 2015 til að ganga til liðs við ISIS ásamt tveimur öðrum stúlkum. Vísir/Getty
Shamimu Begum, sem komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar hún vildi snúa aftur til Bretlands eftir að hafa gengið til liðs við ISIS árið 2015, bíður dauðarefsing haldi hún til Asíuríkisins Bangladess. Begum var í febrúar svipt breskum ríkisborgararétti á grundvelli þess að hún væri einnig bangladesskur ríkisborgari. Guardian greinir frá.

Því hefur verið talið að Begum verði send til Bangladess yfirgefi hún flóttamannabúðirnar sem hún dvelur í. Utanríkisráðherra Bangladess segir þó að Shamima Begum hafi ekkert með ríkið að gera.

„Hún er ekki bangladesskur ríkisborgari, hún hefur aldrei sótt um ríkisborgararétt. Hún er fædd í Englandi og á enska móður,“ sagði ráðherrann Abdul Momen. Lögmaður Begum, Tasnime Akunjee, er sammála ráðherranum og segir það liggja í augum uppi að Begum er borin og barnfæddur Breti og að hún sé engan vegin vandamál sem Bangladess eigi að leysa.

Utanríkisráðherrann Momen sagði einnig að örlög Begum yrðu grimm komi hún til landsins. „Reglurnar hérna eru einfaldar. Ef einhver er dæmdur fyrir að vera viðriðinn hryðjuverkastarfsemi bíður hans dauðarefsing og ekkert annað. Hún [Begum] yrði sett í fangelsi og seinna hengd, sagði Utanríkisráðherra Bangladess, Abdul Momen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×