Einn er mögulega höfuðkúpubrotinn eftir slagsmál á Smiðjuvegi í Kópavogi á áttunda tímanum í morgun þar sem eggvopni var beitt. Karl og kona voru handtekin vegna rannsóknar lögreglu á málinu.
Maðurinn sem fluttur var á sjúkrahús var illa skorinn á höfði og mögulega höfuðkúpubrotinn þegar hann var fluttur á sjúkrahús að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi. Hann er ekki talinn í lífshættu.
Hann segir konuna og karlinn sem eru í haldi og manninn sem er á sjúkrahúsi öll vera Íslendinga á tvítugsaldri.
Hann segir öll þrjú hafa verið í annarlegu ástandi eftir neyslu efna.
Enn á eftir að yfirheyra aðila málsins en Gunnar býst ekki við að farið verði fram á gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins eins og staðan er núna.
Einn á sjúkrahúsi eftir alvarlega líkamsárás þar sem eggvopni var beitt
Birgir Olgeirsson skrifar
