Innlent

Ráðist á tólf ára stúlku

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stúlkan gaf lögreglu greinargóða lýsingu á árásinni sem reyndist vera með öllu tilefnislaus.
Stúlkan gaf lögreglu greinargóða lýsingu á árásinni sem reyndist vera með öllu tilefnislaus. Vísir/vilhelm
Laust eftir klukkan þrjú í dag tilkynnti faðir tólf ára stúlku að maður hefði ráðist á dóttur hans þegar hún var á leiðinni heim úr skólanum með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á andliti.

Stúlkan gaf lögreglu greinargóða lýsingu á árásinni sem reyndist vera með öllu tilefnislaus.

Gerandinn var einn á ferð þegar hann réðst á stúlkuna. Málið er í rannsókn.

Þetta kom fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Laust eftir klukkan 11 fyrir hádegi í dag fékk lögregla tilkynningu um slagsmál á milli tveggja ungra kvenna í Háaleitis-og Bústaðarhverfinu.

Átökin voru yfirstaðin þegar lögregla kom á vettvang en ásakanir gengu á víxl. Konurnar hlutu minniháttar áverka vegna slagsmálanna. Að sögn lögreglu verður kæra hugsanlega lögð fram.

Laust eftir klukkan eitt í dag var óskað eftir aðstoð lögreglu í opinberri stofnun í Hlíðunum vegna manns sem var ósáttur við afgreiðslu á máli. Sá sem kallaði eftir aðstoð lögreglu sagði að maðurinn hefði verið ógnandi í garð starfsfólks. Lögreglan vísaði manninum út.

Í hádeginu var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr geymslu í fjölbýlishúsi í Vesturbæ. Alls konar munum var stolið þaðan og er málið í rannsókn.

Klukkan hálf tólf var lögreglu tilkynnt um mann sem áreitti fólk fyrir utan matvöruverslun í Breiðholtinu. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×