Innlent

Ingibjörg Sólrún rekur söguna af baktjaldaátökum við Jón Baldvin vegna bréfaskrifa hans

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingibjörg Sólrún fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Vísir/EPA
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur birt færslu þar sem hún rekur samskipti sín við Jón Baldvin Hannibalsson í aðdraganda þingkosninga árið 2007. Það gerir Ingibjörg Sólrún í færslu sem hún birtir í lokuðum Metoo-hópi á Facebook sem er nefndur eftir Jóni Baldvin.

Ingibörg segir í samtali við Vísi að hún ætli ekki að tjá sig við fjölmiðla umfram það sem kemur fram í færslunni.

Ingibjörg rekur söguna aftur til 2005 í færslunni þegar hún varð formaður Samfylkingarinnar en hún segir að Jón Baldvin hafi verið einn af þeim sem studdu hana í framboð.

„Á þessum tíma mat ég hann mikils sem skarpan samfélagsrýni og öflugan bardagamann í pólitík þó að mér væri líka vel ljóst að hann var gallagripur sem betra var að hafa ekki alltof nálægt sér. Af og til gerðist það líka að konur hvísluðu því að mér að fara varlega - hann væri ekki allur þar sem hann er séður. Aldrei vissi ég hvað það var sem þær voru að ýja að - eða kannski vildi ég bara ekki vita það.“

Var orðaður við ráðherraembætti

Þegar líða fór nær kosningum árið 2007 segir Ingibjörg að Jón Baldvin hafi gerst sífellt fyrirferðameiri í pólitískri umræðu og sá orðrómur farið af stað að ef Samfylkingin færi í ríkisstjórn eftir kosningar þá væri Jón Baldvin hugsanlegt ráðherraefni.

Jón Baldvin Hannibalsson sést hér mæta í Útvarpshúsið fyrir viðtalið í Silfrinu í gær.Vísir/Vilhelm
„Um líkt leyti heyrði ég í fyrsta sinn ávæning af því að hann hefði skrifað Guðrúnu Harðardóttur mjög tvíræð bréf þegar hann var sendiherra,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Sólrún segir í færslu sinni, að hún hefði í sínum pólitísku önnum látið kyrrt liggja þar til í janúar 2007 þegar hún verið var að stilla upp á lista fyrir þingkosningarnar það vor en þá komst Ingibjörg að því að Jóni hafði verið boðið heiðurssæti.

„Ég áttaði mig á því að ég yrði að komast til botns í þessu máli – sjálfrar mín vegna og Samfylkingarinnar vegna. Ég myndi aldrei fyrirgefa sjálfri mér að komast síðar að því að JBH hefði valdið Guðrúnu dóttur Möllu vinkonu minnar miska og ég hefði kosið að snúa blinda auganu við því,“ skrifar Ingibjörg.

Ræddi við föður Guðrúnar

Hún segir Guðrúnu hafa verið í Berlín þegar þetta var og hafði Ingibjörg samband við Hörð föður hennar og beðið hann að hitta sig. Ingibjörg segir Hörð hafa sagt henni alla sólarsöguna og látið hana hafa afrit af öllum bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar.

„Og sagði mér jafnframt að málið hefði verið kært til lögreglu,“ ritar Ingibjörg.

Hún segir þessa vitneskju hafa lagt ákveðnar skyldur á hennar herðar en um leið var þetta vandmeðfarið mál því hún hafði engar heimildir til að gera málið opinbert. Sagan var Guðrúnar og hennar að ákveð hvort og þá hvenær hún kysi að stíga fram og segja hana.

„Ég ákvað engu að síður að boða JBH á minn fund, greina honum frá vitneskju minni og óska eftir því við hann dragi sig til baka af framboðslistanum,“ segir Ingibjörg.

Dagur B. Eggertsson var viðstaddur fundinn með Ingibjörgu Sólrúnu og Jóni Baldvin. Vísir/Vilhelm
Hún vissi að hún yrði að hafa vitni að þessu samtali og fékk því Dag B. Eggertsson til að vera viðstaddan.

Segir Jón hafa brugðist ókvæða við

Ingibjörg segir skemmst frá því að segja að Jón Baldvin brást ókvæða við. „Sagði að það væru engin sakarefni og að saksóknari myndi að öllum líkindum vísa málinu frá. Ég sagði honum þá að það breytti í sjálfu sér engu, söm væri gjörðin. Ég hefði lesið bréfin, þekkti innihald þeirra og framkoma hans væri þess eðlis að ég vildi ekki hafa hann á lista Samfylkingarinnar. Ég hefði hins vegar ekkert leyfi til að gera þessa vitneskju mína opinbera og hann yrði því sjálfur að hafa samband við uppstillinganefndina og taka sig af listanum,“ segir Ingibjörg.

 

Sá hann í Silfrinu nokkrum dögum síðar

Hún segir Jón Baldvin hafa yfirgefið fundinn í fússi en tekið sig af listanum sama dag, sem var föstudagur. Hún segist hafa síðan í framhaldinu verið heima hjá sér á sunnudegi að horfa á Silfur Egils og séð þar Jón Baldvin básúna pólitískan ágreining sinn við formann Samfylkingarinnar sem varð til þess að honum var bolað úr heiðurssæti á lista fyrir kosningarnar. „Auðvitað JBH sem ákvað að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir ef ske kynni að fjölmiðlar fengju pata af málinu. Hann vissi líka sem var að ég gat ekki með nokkru móti varið mig því þá hefði ég þurft að gera mál Guðrúnar, og hana þar með, að fjölmiðlamat sem ég átti ekkert með að gera. Ég átti því ekki annan kost en að þegja þunnu hljóði meðan JBH geisaði,“ segir Ingibjörg Sólrún.

 

Segist vilja varpa ljósi á framgöngu hans

Ingibjörg segist segja þessa sögu núna því hún varpi ljósi á það sem einkennir framgöngu Jóns Baldvins.

„Honum finnst sjálfsagt að grípa til allra tiltækra meðala til að verja sjálfan sig. Allt frá því mál Guðrúnar kom inn á borð saksóknara hefur JBH rakið það til ,,fjölskylduharmleiksins” og síðan hefur hann klappað þann stein í sífellu jafnvel þó að þar með sé hann að skrumskæla líf dóttur sinnar og dótturdóttur og gera það að fjölmiðlaefni,“ segir Ingibjörg.

Hún segir Jón einnig grípa til annars vopns sem er að atlagan að honum sé runnin undan rifjum hennar.

Ingibjörg Sólrún var formaður Samfylkingarinnar á árunum 2005 til 2009.Vísir/EPA
„Til að leggja honum það vopn ekki upp í hendur ákvað ég að koma ekki nálægt umfjöllun fjölmiðla þó að eftir því hafi verið leitað. Nú hefur JBH hins vegar sjálfur kosið að draga Samfylkinguna inn í málið þannig að það er eins gott að allir viti hvernig hans mál blöstu við mér í ársbyrjun 2007. Þetta var óskemmtilegt samtal sem ég átti við JBH en það sýndi mér óþyrmilega hvaða mann hann hafði að geyma. Þessi maður hefur birst mér oft síðan, nú síðast í Silfri Egils í gær og greinarskrifum í dag,“ segir Ingibjörg.

Hún segist taka ofan fyrir þeim konum sem hafa ákveðið að stíga fram og láta ekki undan síga.

„Sérstaklega vil ég segja við Aldísi og Guðrúnu – þið eruð meiri hetjur en ég held þið gerið ykkur grein fyrir.“


Tengdar fréttir

„Við höfum nú þegar tvær úr þessum hóp reynt að leggja fram kæru“

Það hefur borið lítinn árangur til þessa að leggja fram kæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni og þess vegna hafa konur brugðið á það ráð að lýsa reynslu sinni opinberlega. Þetta segir ein þeirra tuttugu og þriggja kvenna sem birtu sögur sínar af meintum kynferðisbrotum og áreiti af hálfu Jóns Baldvins á bloggsíðu í morgun.

Sakar Jón Baldvin um lygar

Frásagnir tuttugu og þriggja ónafnfgreindra kvenna um kynferðisbrot og áreiti Jóns Baldvins Hannibalssonar koma fram á bloggsíðu sem birtist í morgun. Hann neitar að hafa beitt kynferðislegri misbeitingu og segir um róg og níð að ræða. Talskona hópsins segir hann ljúga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.