Innlent

Segir framgöngu Isavia geta skaðað orðspor Íslands sem flugrekstrarlands

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Forstjóri Icelandair Group segir framgöngu Isavia, í máli bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins Air Lease Corporation (ALC), eigenda flugvélar WOW air sem kyrrsett er á Keflavíkurflugvelli, geta skaðað orðspor Íslands sem flugrekstrarlands. Hún gæti haft neikvæð áhrif á fjármunakjör Icelandair til framtíðar.

Í aðfararbeiðni bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC vegna vélarinnar segir að Isavia hafi skort heimildir til að leyfa WOW að safna tæplega tveggja milljarða króna skuldum við Keflavíkurflugvöll í níu mánuði og telja lögmenn ALC að Isavia hafi bakað sér bótaábyrð. Aðfararbeiðni hefur verið lögð fram í Héraðsdómi Reykjaness þar sem þess er krafist að Isavia láti af hendi farþegaþotuna.

Isavia telur fullnægjandi lagaheimildir fyrir kyrrsetningu á flugvélinni. 

Þá segir í aðfararbeiðninni að Isavia kunni að leiða til þess að flugvélaleigusalar muni forðast, takmarka eða jafnvel banna leigutökum véla sinna að beina þeim um flugvöllinn í Keflavík. Er það byggt á því að reynsla þeirra af samskiptum við Isavia sýni að ekki sé tryggt að farið sé að lögum og reglum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, tekur í sama streng og segir framgöngu Isavia geta haft neikvæð áhrif á ímynd Icelandair.

Það er ákveðin hætta á því að þetta skaði orðspor Íslands sem flugrekstarlands og þar á meðal flugfélaga eins og okkar og þetta gæti haft neikvæð á fjármunakjör okkar til framtíðar,“ segir Bogi Nils.

Hann hefur áður gagnrýnt skuldasöfnun WOW á Keflavíkurflugvelli, og sagt illskiljanlegt að Isavia, fyrirtæki í opinberri eigu, taki þátt í því að fjármagna taprekstur og þar með skekkja samkeppnisstöðu á markaði. Hann segir það hafa komið sér verulega á óvart hve lengi WOW air hafi ekki staðið í skilum við Isavia.

„Og að fjárhæðirnar skyldu verða svona háar að það skyldi ekki vera brugðist við fyrr. Með þessu var verið að skapa ákveðnar væntingar í ferðaþjónustunni á Íslandi sem voru byggðar á sandi að einhverju leyti,“ segir Bogi Nils.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.