Viðskipti innlent

Eigandi WOW-vélarinnar leitar til dómstóla vegna Isavia

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vél WOW air TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli síðan í mars.
Vél WOW air TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli síðan í mars. Vísir/vilhelm
Bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporation, ALC, eigandi vélarinnar TF-GPA sem Isavia kyrrsetti á Keflavíkurflugvelli, hefur lagt fram aðfararbeiðni í Héraðsdómi Reykjaness þar sem þess er krafist að Isa­via láti vélina af hendi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Morgunblaðið hefur upp úr aðfararbeiðninni að ALC fullyrði að Isavia skorti lagaheimild til að halda vélinni. ALC hafi til að mynda ekki verið tilkynnt um kyrrsetninguna fyrr en mörgum klukkustundum eftir að WOW air var úrskurðað gjaldþrota. Þá hafi Isavia farið á svig við eigin reglur með því að veita WOW air lánafyrirgreiðslu með þeim hætti sem gert var.

Í aðfararbeiðninni komi einnig fram að flugvélaleigusalar muni forðast, takmarka eða jafnvel banna leigutökum véla sinna að beina þeim um Keflavíkurflugvöll vegna framgöngu Isavia í málinu. Þetta mat byggi ALC á því að reynslan af samskiptum við Isavia sýni að ekki sé tryggt að farið sé að lögum og reglum.

Þá hefur Morgunblaðið eftir heimildum sínum að boðað hafi verið til fyrirtöku málsins í héraðsdómi á þriðjudag.

Því hefur verið haldið fram að skuld WOW air við Isavia nemi um tveimur milljörðum króna. Isavia hefur gefið það út að flugvélin verði ekki látin af hendi fyrr en skuld WOW air verði greidd.


Tengdar fréttir

Isavia krafði flugvélaleigu um greiðslu skuldar WOW

Í samkomulagi sem gert var milli Isavia og flugfélagsins WOW Air í september síðastliðnum var gengið út frá því að flugfélagið greiddi milljarðaskuld við Isavia í þrettán afborgunum, þá var einnig gerð krafa að ein flugvéla sem WOW hafði til umráða yrði kyrrsett á Keflavíkurflugvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×