Erlent

Bresk kona lést í skotárás í Nígeríu

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Lögreglumaður í Nígeríu.
Lögreglumaður í Nígeríu. Getty/Jamie McDonald
Bresk kona var meðal þeirra tveggja sem létu lífið í byssuárás sem gerð var á ferðamannastað í Nígeríu. Bresk yfirvöld staðfestu andlát hennar en vinnuveitendur hennar tilkynntu nafn hennar, Faye Mooney. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC.

Mooney starfaði í Nígeríu en var í fríi í borginni Kaduna í norðurhluta landsins.

Lögreglan á svæðinu sagði nígerskan mann einnig hafa látist, en þremur var rænt í árásinni á föstudag.

Mannrán þar sem lausnargjalds er krafist er algengt í Nígeríu, þar sem stór hluti þeirra sem rænt er eru útlendingar og hátt settir Nígeríubúar verða oft skotmörk.

Mooney starfaði fyrir samtökin Mercy Corps í Nígeríu sem upplýsingafulltrúi, en í tilkynningu frá samtökunum sögðust þau „harmi lostin.“

Framkvæmdastjóri samtakanna, Neal Keny-Guyer, sagði hana hafa unnið fyrir samtökin í hátt í tvö ár, þar sem hún hafði farið fyrir verkefni til að draga úr hatursorðræðu og ofbeldi í Nígeríu. Hún hafði áður unnið í Írak og Kósóvó.

Lögreglan á svæðinu sagði enn engan hafa tekið ábyrgð á atburðinum og enn sé verið að vinna að því að bera kennsl á árásarmennina.

Talsmaður ferðamannastaðarins sagði hóp fólks sem vopnað var skotvopnum hafa brotist inn í Kajuru kastalann og hafið skothríð sem banaði tveimur og hafi hópurinn svo rænt þremur öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×