Erlent

Bresk kona lést í skotárás í Nígeríu

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Lögreglumaður í Nígeríu.
Lögreglumaður í Nígeríu. Getty/Jamie McDonald

Bresk kona var meðal þeirra tveggja sem létu lífið í byssuárás sem gerð var á ferðamannastað í Nígeríu. Bresk yfirvöld staðfestu andlát hennar en vinnuveitendur hennar tilkynntu nafn hennar, Faye Mooney. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC.

Mooney starfaði í Nígeríu en var í fríi í borginni Kaduna í norðurhluta landsins.

Lögreglan á svæðinu sagði nígerskan mann einnig hafa látist, en þremur var rænt í árásinni á föstudag.

Mannrán þar sem lausnargjalds er krafist er algengt í Nígeríu, þar sem stór hluti þeirra sem rænt er eru útlendingar og hátt settir Nígeríubúar verða oft skotmörk.

Mooney starfaði fyrir samtökin Mercy Corps í Nígeríu sem upplýsingafulltrúi, en í tilkynningu frá samtökunum sögðust þau „harmi lostin.“

Framkvæmdastjóri samtakanna, Neal Keny-Guyer, sagði hana hafa unnið fyrir samtökin í hátt í tvö ár, þar sem hún hafði farið fyrir verkefni til að draga úr hatursorðræðu og ofbeldi í Nígeríu. Hún hafði áður unnið í Írak og Kósóvó.

Lögreglan á svæðinu sagði enn engan hafa tekið ábyrgð á atburðinum og enn sé verið að vinna að því að bera kennsl á árásarmennina.

Talsmaður ferðamannastaðarins sagði hóp fólks sem vopnað var skotvopnum hafa brotist inn í Kajuru kastalann og hafið skothríð sem banaði tveimur og hafi hópurinn svo rænt þremur öðrum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.