Innlent

Lyngrósin Vigdís afhent að Vigdísi viðstaddri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nöfnurnar tvær í Grasagarðinum í dag.
Nöfnurnar tvær í Grasagarðinum í dag. Vísir/Vilhelm
Lyngrósin Vigdís er komin til landsins fyrir milligöngu Garðyrkjufélags Íslands og verður afhent Grasagarði Reykjavíkur formlega klukkan 14 að Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, viðstaddri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að Lyngrósin Vigdís (Rhododendron decorum ´Vigdís´) eigi sér afar merka sögu. Vilhjálmur Lúðvíksson, fyrrverandi formaður Garðyrkjufélags Íslands, hafi rekist á lyngrósina af algerri tilviljun á athafnasvæði lyngrósagarðsins í Bremen í Þýskalandi árið 2018. Á miða sem festur var við plöntuna hafi staðið nafnið „Vigdís“.

Frá afhendingunni í Grasagarðinum í dag.Vísir/Vilhelm
„Við nánari athugun kom í ljós að lyngrósin kemur frá lyngrósagarðinum á Milde í Noregi og var ræktuð upp af fyrrverandi forstöðumanni garðsins, Per M. Jörgensen prófessor, sem staðfesti að lyngrósin héti í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Jörgensen hafði ætlað að færa Vigdísi blómvönd af lyngrósinni í opinberri heimsókn hennar til Bergen árið 1992 og tilkynna henni þá yrkisnafn plöntunnar. Vegna breytinga á áætlun forsetans varð ekki af þessum fundi og hafði hún því ekki heyrt af lyngrósinni sem heitir eftir henni fyrr en Vilhjálmur rakst á plöntuna í Bremen 26 árum síðar,“ segir í tilkynningu frá borginni.

Nú sé lyngrósin Vigdís komin til landsins fyrir milligöngu Garðyrkjufélags Íslands og Rósaklúbbs og Sígræna klúbbs þess og verður afhent Grasagarði Reykjavíkur formlega klukkan 14 í dag við aðalinngang garðsins.

Fréttin var uppfærð með nýrri aðalmynd klukkan 14:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×