Innlent

Handtóku sjö og lögðu hald á byssur við húsleit í Reykjanesbæ

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumaður sést hér færa skotvopn yfir í lögreglubíl á vettvangi í gær.
Lögreglumaður sést hér færa skotvopn yfir í lögreglubíl á vettvangi í gær. Mynd/Vísir
Sjö voru handteknir við húsleit lögreglunnar á Suðurnesjum í umdæminu í gær. Einnig var lagt hald á skotvopn og fleiri tegundir vopna, auk töluverðs magns af kannabisefnum og amfetamíni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Hin handteknu voru færð til skýrslutöku á lögreglustöð í gær en í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að málið sé í rannsókn og ekki unnt að veita frekari upplýsingar að sinni.

Vísir fékk ábendingu um aðgerð lögreglu í íbúðarhúsi í Innri-Njarðvík í gær. Samkvæmt upplýsingum frá sjónarvotti bar lögregla skotvopn út úr húsinu og þá sást karlmaður leiddur út í járnum. Þá var fólki í nágrenninu brugðið vegna málsins.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, taldi ekki ástæðu til að gera mikið úr málinu þegar Vísir náði tali af honum í gær. Hann staðfesti þó að karlmaður væri í haldi lögreglu og að framundan væri yfirheyrsla. Í tilkynningu frá lögreglu í dag kemur fram að samtals hafi sjö verið handteknir vegna málsins.

Ekki hefur náðst í Jóhannes vegna málsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×