Innlent

Vegagerðin hafnar lægsta tilboði í Reykjanesbraut

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegagerðin hefur hafnað tilboði lægstbjóðanda í breikkun 3,2 kílómetra kafla Reykjanesbrautar í Hafnarfirði þar sem bjóðandinn stóðst ekki kröfur útboðsins. Í staðinn verður rætt við þann sem átti næstlægsta boð. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Verktakasamsteypa sem samanstóð af þremur fyrirtækjum, Ellert Skúlasyni, Borgarvirki og GT-verktökum, stóðst ekki skilyrði um að hafa áður unnið verkefni af ákveðinni stærðargráðu, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar. Tilboð þeirra nam 1.864 milljónum króna, eða 91 prósenti af 2.050 milljóna króna kostnaðaráætlun.

Fjögur tilboð bárust í verkið.Grafík/Guðmundur Björnsson, Stöð 2.
Vegagerðin hyggst í framhaldinu ganga til viðræðna við Ístak, sem átti næstlægsta boð, upp á 2,1 milljarð króna. Um 240 milljónum króna munar á fjárhæð tilboðanna, eða um tólf prósentum. 

Verkið felst í tvöföldun Reykjanesbrautar milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Tilboðin voru opnuð þann 19. mars síðastliðinn en þetta er stærsta útboð Vegagerðarinnar í ár.

Frá opnun tilboða í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar fyrir þremur vikum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, kvaðst í viðtali daginn sem tilboðin voru opnuð vonast til að framkvæmdir hæfust innan tveggja mánaða og að þeim lyki fyrir lok næsta árs.

Frétt Stöðvar 2 frá 19. mars um opnun tilboðanna má sjá hér:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×