Innlent

Staða ferðaþjónustunnar þröng fyrir gjaldþrot WOW air

Sylvía Hall skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það nauðsynlegt að tryggja meira flugframboð til þess að fylla upp í það skarð sem WOW air skildi eftir. Viðbragðsáætlun ríkisstjórnarinnar hafi verið mikilvæg en hún þurfi nú að ganga lengra. 

„Það var vissulega gríðarlega mikilvægt að stíga þar inn, líka upp á orðspor landsins og áfangastaðarins, þá var þetta nauðsynlegt,“ segir Bjarnheiður en það þurfi nú að finna leiðir til þess að vega upp á móti þessu áfalli og þeim viðskiptamissi sem fylgi. 

Í Sprengisandi í dag sagði Bjarnheiður stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu vera þrönga og hún hafi verið það alveg fyrir fall WOW air. Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu hafi farið hratt versnandi síðustu ár og það sýni sig í því að ferðamenn dvelji í styttri tíma og ferðist minna.

„Það er nákvæmlega það sem hefur gerst undanfarin tvö ár.“

Sjá fram á allt að fjögur þúsund uppsagnir

Hún segir samtökin hafa dregið upp ákveðna sviðsmynd af því sem nú taki við eftir fall flugfélagsins og þar er gert ráð fyrir um þrjú hundruð þúsund færri ferðamönnum þrátt fyrir að það yrði stigið inn í að einhverju leyti sem valdi miklum tekjumissi fyrir þjóðarbúið. Þá muni töluverður fjöldi fólks missa störf vegna gjaldþrotsins. 

„Uppsagnir eru nú þegar orðnar að veruleika og við erum svolítið hrædd um að það sé bara rétt að byrja. Við höfum áætlað að töpuð störf gæti orðið allt frá tvö þúsund upp að fjögur þúsund.“

Þá segist hún hafa miklar áhyggjur af stöðunni sem er uppi enda sumarið á næsta leyti. Það þurfi að tryggja meira flugframboð til landsins enda sé stórt skarð sem WOW air skilji eftir sig á markaði.

Viðtalið við Bjarnheiði má heyra í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×