Innlent

Sátu um gestina til að geta byrjað að þrífa klukkan 4 í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu.
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu. fréttablaðið/eyþór
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu, segir að það muni um það þegar 2/3 af starfsmönnum hótelsins séu ekki í vinnu eins og nú er vegna verkfalls VR og Eflingar.

Hún segir mjög stífar reglur varðandi það hverjir megi sinna störfum þeirra sem séu í verkfalli og hótelið vilji að sjálfsögðu fara eftir bókinni varðandi það allt.

„Þetta verður að ganga. Það munar aldeilis um það þegar tveir þriðju af starfsmönnunum eru ekki í vinnu þannig að við finnum fyrir því,“ sagði Ingibjörg í viðtali við Nadine Guðrúnu Yaghi, fréttamann, í beinni útsendingu á Vísi núna upp úr klukkan 11.

Spurð út í það hvaða störfum hún hafi verið að sinna síðan verkfallið skall á á miðnætti segir Ingibjörg að það hafi verið ósköp rólegt fram undir klukkan fjögur.

„En af því að það eru þó nokkur herbergi sem eru að koma inn til okkar í dag þá þurftum við svolítið að sitja um gestina sem fóru þannig að ég byrjaði að þrífa klukkan 4.“

Hún segir þá sem mega vinna í dag vera í kapphlaupi við tímann við það að ná að sinna öllu. Þá hafi hótelið undirbúið gesti sína vel undir verkfallsdaginn og látið þá vita af því að það yrði skert þjónusta í dag.

Auk þess var lokað fyrir bókanir á hótelinu þegar ljóst var að það stefndi í verkfall og standa því 40 af 235 herbergjum hótelsins laus.

En hvað er tekjutap hótelsins mikið vegna verkfallanna?

„Ég hef ekki tekið það saman en við erum líka búin að loka fimmtudeginum og föstudeginum í næstu viku því við getum heldur ekki annað því ef það kemur mikið meira inn þá. Þannig að við bara vonumst til þess að þetta leysist sem allra fyrst.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×