Erlent

Rússnesk hergögn í Caracas

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mynd sem sögð er tekin í Caracas á laugardag.
Mynd sem sögð er tekin í Caracas á laugardag. twitter
Tveimur rússneskum herþotum, klyfjaðar hvers kyns hergögnum og mannskap, er sagt hafa verið flogið til Venesúela á laugardag. Haft er eftir rússneskum miðlum að koma vélanna sé liður í hernaðarsamstarfi ríkjanna tveggja en þrír mánuðir eru liðnir síðan Rússar og Venesúelar héldu sameiginlegar heræfingar.

Rússar eru meðal styrkustu bandamanna venesúelskra stjórnvalda. Þeir hafa látið milljarða af hendi rakna til ríkisins á liðnum árum, auk þess sem þeir hafa varið sitjandi forseta, Nicolás Maduro, gegn ásókn þingforsetans Juan Guaido og alþjóðlegra stuðningsmanna hans.

Venesúelskur blaðamaður sem segist hafa verið staddur á alþjóðaflugvellinum í Caracas um helgina telur sig hafa séð um 100 hermenn ganga úr þotunum tveimur. Þar að auki áætlar hann að um 35 tonn af hergögnum hafi verið ferjaðar úr stærri vélinni, sem var af gerðinni Antonov-124. Þá telur hann sig jafnframt hafa séð hershöfðingjann Vasilý Tonkosjkúrov leiða hermennina frá borði.

Þetta er í annað sinn á undanförnum mánuðum sem Rússar senda herþotur til Venesúela, það gerðu þau síðast í desember síðastliðnum. Samband rússneskra og venesúelskra stjórnvalda hefur styrkst á undanförnum mánuðum, samhliða versnandi sambandi Venesúela og þorra Vesturveldanna.

Rússar hafa fordæmt það sem þeir telja valdaránstilraun fyrrnefnds Guaido, sem lýsti sjálfan sig forseta landsins í janúar. Guaido nýtur þó stuðnings fjölmargra ríkja, til að mynda Bandaríkjanna og Íslands.

Því telja greinendur að Rússar séu með hergagnaflutningi sínum til Caracas að styrkja enn frekar hinn umsetna Maduro gegn íhlutun „bandarískra heimsvaldasinna“ í málefnum Suður-Ameríku.


Tengdar fréttir

Vill rannsókn á Juan Guaidó

Venesúela Tarek Saab, ríkissaksóknari Venesúela, fór í gær fram á við hæstarétt að rannsaka hvort Juan Guaidó stjórnarandstöðuleiðtogi hafi gerst sekur um skemmdarverk á orkuinnviðum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×